VALMYND ×

Úrslit í friðarveggspjaldakeppni Lions

Verðlaunamynd Hálfdáns Ingólfs
Verðlaunamynd Hálfdáns Ingólfs
1 af 14

Nemendur í 6., 7. og 8. bekk tóku í haust þátt í alþjóðlegri friðarveggspjaldakeppni Lions, undir leiðsögn Ólafar Dómhildar Jóhannsdóttur, myndmenntakennara. Keppnin var fyrst haldin árið 1988 og markmiðið með henni er að gefa grunnskólanemendum tækifæri til að koma á framfæri á skapandi hátt hugmyndum sínum varðandi heimsfrið og miðla framtíðarsýn sinni til umheimsins. 

Á hverju ári er valið þema til að vekja ímyndunarafl nemendanna. Tjáning, listrænt gildi og frumleiki eru þau þrjú viðmið sem notuð voru til að meta veggspjöldin. Þemað þetta árið er Við erum öll tengd.

Jón Reynir Sigurvinsson kom til okkar í gær, fyrir hönd Lionsklúbbs Ísafjarðar og afhenti öllum þátttakendum viðurkenningarskjal. Ennfremur veitti hann hvatningarverðlaun fyrir 1. - 3. sæti í keppninni hér á Ísafirði.

Í 3. sæti varð Soffía Rún Pálsdóttir og í 2. sæti Urður Óliversdóttir. Verk þeirra fengu umsögnina að vera yfirburðamyndir hvað varðar teiknifærni og vandvirkni.

Dómnefnd LÍ komst að þeirri niðurstöðu að 1.verðlaun hlyti Hálfdán Ingólfur Hálfdánsson fyrir mynd sína og hlaut hún eftirfarandi umsögn: ,,Veggspjaldið sýnir býflugu sem ber á herðum sér heiminn allan og umvefur hann með vængjum sínum. Það er einfalt í teikningu en myndmálið er sterkt sem gerir það að verkum að allir geta dregið eitthvað af því. Býflugan virkar á dómnefnd sem sameiningartákn - án þeirra getum við ekki verið og því þurfa allir í heiminum að taka höndum saman í þeirri vinnu. Veggspjaldið ber af hvað frumleika varðar, það er listrænt og fangar viðfangsefni ársins vel, þ.e. að tengja fólk".

Verðlaunamyndin verður nú send og metin af dómnefnd sem velur eitt verk frá Íslandi til viðurkenningar hér heima og mun jafnframt verða send í alþjóða keppnina.

Við óskum verðlaunahöfum og þátttakendum öllum innilega til hamingju.