VALMYND ×

Úrslit í Stóru upplestrarkeppninni

Frá vinstri Lena Rut, Íris Embla og Auðbjörg Erna.
Frá vinstri Lena Rut, Íris Embla og Auðbjörg Erna.

Í dag var lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar haldin í Hömrum, sal Tónlistarskólans. Tólf nemendur úr 7. bekk á norðanverðum Vestfjörðum lásu sögubrot úr Bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnason og ljóð eftir Steinunni Sigurðardóttur. Auk þess lásu allir eitt sjálfvalið ljóð. Dómurum var vandi á höndum að gera upp á milli þessara frábæru lesara, en úrslitin urðu þau Auðbjörg Erna Ómarsdóttir frá Grunnskólanum á Þingeyri sigraði, Íris Embla Stefánsdóttir frá Grunnskólanum í Bolungarvík hafnaði í öðru sæti og Lena Rut Ásgeirsdóttir frá Grunnskólanum á Ísafirði í því þriðja.

Dómarar þetta árið voru þau Baldur Sigurðsson, Anna Þ. Ingólfsdóttir, Heiðrún Tryggvadóttir og Kristín Ósk Jónasdóttir. Guðrún Birgisdóttir skóla- og sérkennslufulltrúi Ísafjarðarbæjar hélt utan um dagskrána, en Rósbjörg Edda Rúnarsdóttir, sem hafnaði í 2. sæti keppninnar í fyrra, las inngangstexta. Þá lék skólalúðrasveit Tónlistarskólans nokkur lög í upphafi og sá um að koma öllum í rétta gírinn.

Við óskum öllum lesurum innilega til hamingju með góðan árangur.