VALMYND ×

Myndlistarsýning í Hamraborg

Ómar Karvel Guðmundsson og Sveinfríður Olga Veturliðadóttir skólastjóri
Ómar Karvel Guðmundsson og Sveinfríður Olga Veturliðadóttir skólastjóri

Á morgun, föstudaginn 11. maí, opnar Ómar Karvel Guðmundsson nemandi í 10. bekk G.Í. myndlistarsýningu í Hamraborg á Ísafirði kl. 10:00. Sýning þessi stendur yfir út mánuðinn og er fyrsta einkasýning Ómars Karvels og jafnframt útskriftarsýning hans frá Grunnskólanum á Ísafirði. Á sýningunni getur að líta sýnishorn af verkum hans í skólanum undanfarin ár.

 

Ómar Karvel er 15 ára, fæddur 20. júlí 1996. Hann var snemma greindur með ódæmigerða einhverfu og málþroskaröskun og hefur þurft aðstoð í námi í samræmi við fötlun sína. Myndlist hefur alla tíð verið sérsvið Ómars Karvels og hefur hann í gegnum tíðina þróað þann hæfileika sinn í myndmenntatímum árgangsins undir leiðsögn Péturs Guðmundssonar myndmenntarkennara og hvenær sem tækifæri hefur gefist, bæði heima og í skóla. Þegar Ómar Karvel hóf nám í 9. bekk var ákveðið að styðja enn frekar við myndlistarnám hans með vikulegri einkakennslu og hefur Valgerður Gísladóttir myndmenntarkennari sinnt þeirri kennslu frá þeim tíma.

 

Í gær var síðasti hefðbundni skóladagur Ómars Karvels og annarra 10. bekkinga í GÍ en við taka próf, skólaferðalag og fleira. Á þeim tímamótum afhenti Ómar Karvel skólanum tekassa að gjöf, sem hann smíðaði sjálfur og tók Sveinfríður Olga Veturliðadóttir við gjöfinni.