VALMYND ×

Læsisráðgjafar í heimsókn

Haustið 2015 gerðu Mennta- og menningarmálaráðuneyti og sveitarfélög með sér sáttmála um læsi ​og Ísafjarðarbær tók að sjálfsögðu þátt í því. Einn liður í átakinu fólst í því að ráðinn var hópur læsisráðgjafa sem hefur starfað í Menntamálastofnun í vetur. Tveir fulltrúar hópsins heimsóttu Grunnskólann á Ísafirði  fimmtudaginn 28. apríl og var það önnur heimsókn þeirra í skólann á þessum vetri. Þar voru á ferðinni þær Hlíf Brynja Baldursdóttir og Ingibjörg Þorleifsdóttir sem báðar eru grunnskólakennarar með mikla reynslu að baki. Ingibjörg er mörgum Vestfirðingum að góðu kunn, ekki síst Hnífsdælingum því hún kenndi í mörg ár við Barnaskólann í Hnífsdal.  Þær stöllur funduðu með skólastjórnendum og kennurum á hinum ýmsu aldursstigum þar sem farið var yfir stöðuna hjá okkur og spjallað vítt og breitt um lestrarkennslu og læsi.

Eitt af verkefnum læsisráðgjafahópsins hefur verið að semja lesfimipróf sem munu verða lögð fyrir alla grunnskólanemendur á Íslandi næsta vetur. G.Í. tók að sér ásamt fleiri skólum að „prufukeyra" þessi próf til að aðstoða við stöðlun þeirra og einmitt þessa dagana er verið að leggja þau fyrir alla nemendur skólans í annað sinn.

Mikil áhersla hefur verið lögð á lestur í skólastarfinu í vetur svo sem jafnan áður og vonandi ber það tilætlaðan árangur, því fátt er mikilvægara fyrir unga námsmenn en að vera vel læsir svo að þeir geti nýtt hæfileika sína til fulls. Munum líka að lestrarþjálfun er samstarfsverkefni og þar þurfa kennarar, foreldrar og nemendur að standa saman. Nú er Fossavatnsgangan framundan og engum dettur í hug að taka þátt í henni án þess að vera í góðri þjálfun. Segja má að námsárin sem nemendur okkar eiga framundan séu líka nokkurs konar maraþonganga – í lestri – og ekki síður nauðsynlegt að vera í góðu formi og vel undirbúinn fyrir hana. /HMH