VALMYND ×

Fréttir

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fer fran í Hömrum, sal Tónlistarskólans á Ísafirði fimmtudaginn 3. mars kl. 20:00.

Á hátíðinni munu 11 nemendur úr 7. bekk, þ.e. 1 frá Flateyri, 1 frá Þingeyri, 1 frá Suðureyri, 3 frá Bolungarvík og 5 frá Ísafirði, lesa brot úr sögu eftir Bryndísi Björgvinsdóttir og ljóð  eftir Guðmund Böðvarsson. Fulltrúar okkar verða þau Helena Haraldsdóttir, Júlíana Lind Jóhannsdóttir, Rakel Damilola Adeleye, Rósbjörg Edda Rúnarsdóttir og Sveinbjörn Orri Heimisson. Dómnefnd mun velja þrjá bestu upplesarana og veita  þeim verðlaun. Ungir hljóðfæraleikarar munu leika fyrir gesti á milli atriða.   Áætlað er að athöfnin standi í tvær klukkustundir.

Gestir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Lestrarátaki Ævars lokið

Nú er lestrarátaki Ævars vísindamanns lokið þetta árið, en átakið var tilraun til þess að kveikja áhuga barna í 1. – 7. bekk í grunnskólum landsins á lestri. Átakið stóð frá 1. janúar til 1. mars 2016 og er hugarfóstur Ævars Þórs Benediktssonar leikara, rithöfundar og dagskrárgerðarmanns.

Þátttakendur í átakinu lásu og kvittuðu fyrir hverja bók á sérstakan miða.  Miðunum var svo safnað saman á bókasafni skólans, en voru sendir til Heimilis og skóla í gær.  Ævar mun svo draga út nöfn fimm barna og fá þau í verðlaun að verða persónur í nýrri ævintýrabók sem hann er að skrifa (Bernskubrek Ævars vísindamanns 2: Árás vélmennakennaranna) sem kemur út með vorinu hjá Forlaginu – svo það er til mikils að vinna. Nú er bara að vona að nöfn einhverra nemenda skólans verði dregin út.

Nýsköpunarkeppni grunnskólanna

Grunnskólinn á Ísafirði stefnir á þátttöku í nýsköpunarkeppni grunnskólanna 2016. Öllum nemendum í 5. - 7. bekk býðst að taka þátt í keppninni. Umsóknareyðublöð má nálgast á vefsíðu keppninnar  eða hjá Ólöfu Dómhildi Jóhannsdóttur, myndmenntakennara. Við hvetjum alla nemendur til að leggja höfuðið í bleyti, vanda vinnubrögðin og taka þátt.

Skilafrestur umsókna er 11. apríl 2016 og er Ólöf Dómhildur til ráðgjafar fyrir áhugasama.

Allt í köku

Auður Líf Benediktsdóttir
Auður Líf Benediktsdóttir
1 af 10

Þær voru glæsilegar terturnar sem sumir nemendur tóku með sér heim s.l. fimmtudag. Nokkur hópur nemenda hefur verið í valgreininni Allt í köku hjá Guðlaugu Jónsdóttur, heimilisfræðikennara. Meðal verkefna þar er bakstur og sykurmassagerð og var afraksturinn svo sannarlega glæsilegur, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.  

Góður dagur í Tungudal

1 af 2

Útivistardagurinn í Tungudal s.l. föstudag gekk mjög vel, ef frá er talið eitt beinbrot. Veðrið var eins og best var á kosið og ágætis færi. Nemendur 5. - 10. bekkjar nutu þess að renna sér á skíðum, brettum, sleðum, þotum og ruslapokum. 

Í dag er hinsvegar allt með hefðbundnum hætti hér í skólanum og allir farnir að huga að árshátíð sem haldin verður 16. og 17. mars n.k.

Stóra upplestrarkeppnin

Keppendur dagsins þau Gylfi Hallvarðsson, Rósbjörg Edda Rúnarsdóttir, Júlíana Lind Jóhannsdóttir, Sara Emily Newman, Sveinbjörn Orri Heimisson, Katla María Sæmundsdóttir, Helena Haraldsdóttir, Rakel Damilola Adeleye, Sædís Mjöll Steinþórsdóttir, Linda Rós Hannesdóttir og Jelena Rós Valsdóttir.
Keppendur dagsins þau Gylfi Hallvarðsson, Rósbjörg Edda Rúnarsdóttir, Júlíana Lind Jóhannsdóttir, Sara Emily Newman, Sveinbjörn Orri Heimisson, Katla María Sæmundsdóttir, Helena Haraldsdóttir, Rakel Damilola Adeleye, Sædís Mjöll Steinþórsdóttir, Linda Rós Hannesdóttir og Jelena Rós Valsdóttir.
1 af 2

Í morgun var skólakeppni Stóru upplestrarkeppninnar haldin í sal skólans. Þar lásu 11 nemendur 7. bekkjar sögubrot og ljóð, en árgangurinn hefur æft framsögn stíft undanfarnar vikur. Eftir lesturinn var boðið upp á tónlistaratriði, þar sem hljómsveit bekkjarins lék eitt lag og nemendur kynntu svo skólabúðirnar á Reykjum í Hrútafirði í máli og myndum fyrir 6. bekk.


Meira

Snjóskúlptúr á Austurvelli

1 af 2

Í gær viðraði vel til útivistar og nægur snjór. Myndmenntahópur 5. bekkjar dreif sig því út í góða veðrið og nýtti snjóinn sem efnivið til listsköpunar. Hópurinn gerði stóran snjóskúlptúr af frjósemisgyðjunni Venus frá Willendorf og litaði með vatnslitum, undir leiðsögn Ólafar Dómhildar Jóhannsdóttur, myndmenntakennara. Allir voru þreyttir, blautir og ánægðir þegar að verkinu var lokið og hvílir Venus sig í blómagarðinum við Austurveg.

 

Útivistardagur

Stefnt er að útivistardegi í Tungudal  föstudaginn 26. febrúar fyrir nemendur í 5.-10. bekk. Gert er ráð fyrir að nemendur verði á skíðasvæðinu frá  kl. 9:00-13:00. 

Farið er þess á leit við foreldra að þeir keyri börn sín á skíðasvæðið og sæki þau aftur.  Við vitum að ekki eiga allir foreldrar auðvelt með það og því bjóðum við upp á eina ferð fyrir nemendur sem ekki eiga annarra kosta völ.  Ferð frá skóla verður kl. 8:45 og heim aftur frá skíðasvæðinu kl 13:00.

Á skíðasvæðinu er hægt að leigja skíði og kostar það um 1500 kr.  Þeir nemendur sem ekki fara á skíði geta haft með sér sleða og þotur.

Ekkert gjald verður tekið í lyfturnar. Mötuneytið mun sjá um hádegishressingu fyrir þá nemendur sem eru í áskrift í mötuneytinu.  Aðrir þurfa að koma með nesti að heiman.

Nemendur eru hvattir til að koma með hjálma og þeir nemendur sem ekki eiga hjálma geta fengið þá lánaða á staðnum (það má nota reiðhjólahjálma).

Foreldrar eru alltaf velkomnir með í útivistarferðir skólans og skíðandi foreldrar vel þegnir. Það spáir vel fyrir föstudaginn og vonandi munum við njóta dagsins sem best.

Fréttabréf

Út er komið nýtt fréttabréf skólans, en þar er m.a. fjallað um breytta heimanámsstefnu og málþing um jafnrétti sem haldið var í skólanum í gær.

Jafnréttisþing

Á morgun, fimmtudaginn 18. febrúar, verður blásið til jafnréttisþings hér í skólanum. Þátttakendur eru allir nemendur í 6. - 10. bekk og verður þeim skipt í hópa þvert á árganga. Elstu nemendur skólans stýra umræðum í sínum hópum og hafa þeir fengið sérstakar leiðbeiningar og þjálfun varðandi þann þátt. 

Bergljót Þrastardóttir, sérfræðingur hjá Jafnréttisstofu, mun verða með innlegg í upphafi þingsins og leiða nemendur af stað. Hóparnir munu fjalla um það hvað nemendur, starfsfólk og foreldrar geta gert til að auka jafnrétti í skólanum, heima og jafnvel víðar. Þingið stendur frá kl. 8:00 - 11:00 og verður virkilega spennandi að sjá niðurstöður.