VALMYND ×

Fréttir

Skólinn opinn í dag

Skólinn verður opinn í dag þrátt fyrir appelsínugula viðvörun. Við hvetjum þó alla til að fara varlega og biðjum foreldra að fylgja yngri börnum að strætó eða í skólann. Ef foreldrar hafa börn sín heima í dag skal það tilkynnt í Mentor.

Appelsínugul veðurviðvörun

Á morgun, mánudaginn 18.mars 2024 er appelsínugul veðurviðvörun og spáð norðaustan 18-25 m/s og snjókomu. Við bendum foreldrum á verklag Ísafjarðarbæjar er óveður geisar, en samkvæmt því geta foreldrar haldið börnum sínum heima og tilkynnt það í gegnum Mentor. 

Við munum taka stöðuna í fyrramálið og gefum frekari upplýsingar fyrir kl. 7:00 ef röskun verður á skólahaldi.

Árshátíð í næstu viku

Prúðbúnir dyraverðir á árshátíð 2014
Prúðbúnir dyraverðir á árshátíð 2014

Miðvikudaginn 20. mars og fimmtudaginn 21. mars verður árshátíð skólans haldin. Yfirskriftin þetta árið er ,,Innlit í áratug" og verður gaman að sjá hvert hver og einn árgangur leiðir okkur að þessu sinni. Nemendur hafa æft stíft þessa vikuna og er spennan farin að magnast. Það getur verið flókið að koma 390 nemendum í hlutverk, en allt hefst þetta að lokum með mikilli vinnu og útsjónarsemi starfsmanna. Ekki má gleyma því að fjölmargir nemendur koma að tæknimálum, kynningum, förðun, sviðsstjórn og fleiru, auk þeirra sem stíga á svið, þannig að styrkleikar hvers og eins fá að njóta sín sem best og öll hlutverk mikilvæg.

Við höfum nú fjölgað sýningum frá því í fyrra, þegar áhorfendafjöldi flæddi nánast út úr húsi á kvöldsýningu. Við höfum því tvær kvöldsýningar þetta árið til að mæta því. Sýningarnar verða eins og hér segir:

Miðvikudagur 20. mars 2024

1.sýning kl. 9:00, flytjendur 1. - 6. bekkur, nemendur í 1. og 2. bekk horfa á ásamt sínum gestum

2.sýning kl.11:00, flytjendur 5.-10.bekkur, nemendur í 5. og 6. bekk horfa á ásamt sínum gestum

3.sýning kl.20:00, flytjendur 7.-10.bekkur, nemendur í 7. og 8. bekk horfa á ásamt sínum gestum.

 

Fimmtudagur 21.mars 2024

4.sýning kl. 9:00, flytjendur 1. - 6. bekkur, nemendur í 3. og 4. bekk horfa á ásamt sínum gestum

5.sýning kl.11:00, flytjendur 1. - 4. bekkur, nemendur Tanga og unglingastig horfa á (engir utanaðkomandi gestir)

6.sýning kl.20:00, flytjendur 7.-10. bekkur, nemendur 9. og 10. bekk horfa á ásamt gestum.

 

Miðaverð er kr. 1.000 fyrir gesti og er hægt að nýta miðann á fleiri en eina sýningu ef á þarf að halda. Aðeins er tekið við peningum, enginn posi á staðnum. Andvirði miðasölu fer í tækjasjóð. Við biðjum foreldra og aðra gesti að virða skipulagið eins og hægt er til að komast hjá sem mestri mannþröng.

Astoðarskólastjóri í námsleyfi veturinn 2024 - 2025

Helga S. Snorradóttir aðstoðarskólastjóri verður í námsleyfi næsta skólaár. Guðný Stefanía Stefánsdóttir kennari mun leysa hana af og verður því aðstoðarskólastjóri skólaárið 2024-2025.

Fyrsti hluti upplestrarkeppninnar

Í morgun fór bekkjakeppni Stóru upplestrarkeppninnar fram í 7.bekk. Allir nemendur árgangsins hafa æft sig undanfarnar vikur og lásu þeir sögubrot og ljóð að eigin vali. Árangurinn var líka eftir því og stóðu allir sig með prýði.

Þeir sem komust áfram í skólakeppnina sem verður haldin þann 4.apríl eru Magnús Húni, Matthías Kristján, Pétur Arnar, Aðalheiður, Vanda Rós, Salka Rosina, Elínborg Birna, Emelía Rós, Birkir Hafsteinn, Einar, Simon Richard, Nadia, Emilía Rós, Margrét Rán, Freyja Rún og Edda Sigríður. Til vara verða þau Patrekur Rafn og Amelia Anna.

Við óskum öllum 7.bekkingum til hamingju með góðan árangur í lestrarþjálfuninni og hlökkum til að fylgjast með framhaldinu.

Skíða- og útivistardagur

Frá skíðadegi 2018
Frá skíðadegi 2018

Miðvikudaginn 6.mars ætlum við að hafa skíða- og útivistardag í Tungudal hjá 5. - 10. bekk. Við biðjum þá sem geta að sameinast í einkabíla, en ein rúta fer frá skólanum kl. 10:00 og til baka úr Tungudal kl. 13:00. Engin kennsla er frá kl. 8:00 - 10:00 hjá þessum árgöngum. Þeir sem ekki eiga skíðabúnað geta komið með sleða, þotur eða annað til að renna sér á, en einnig er hægt að fá skíði lánuð endurgjaldslaust í skíðaskálanum, á meðan birgðir endast. Mötuneytið sendir samlokur og fernur á svæðið fyrir áskrifendur og verður hægt að grilla þær í skálanum.

Það stefnir í að veðrið leiki við okkur og vonum við svo sannarlega að allir njóti dagsins sem best.

Chromebook tölvur á unglingastig

1 af 2
Grunnskólinn á Ísafirði hefur notað iPad í kennslu frá árinu 2014. Nemendur í 5.-10. bekk hafa verið með eitt tæki á mann en á yngsta stigi hafa verið bekkjarsett. Tækin hafa sett nýja vídd í kennsluna á margan hátt og aukið fjölbreytni í kennsluháttum. Það eina sem vantaði við spjaldtölvurnar var lyklaborð, en eitt af markmiðum aðalnámskrár er að nemendur læri fingrasetningu en það er með hana eins og annað að það þarf að halda við þekkingunni. Við höfum náð því að nokkru leyti með nýtingu tölva í tölvuveri, en betur má ef duga skal.
Síðasta haust var því  ákveðið að láta 10. bekk frá Chromebook tölvur, þar sem nemendur í elstu bekkjunum eru að vinna mun meira með ritun í stærri verkefnum. Chromebook tölvur eru fartölvur sem hafa lítið minni og vista allt efni á skýi. Nemendur á unglingastigi nota Google Classroom í miklum mæli til verkefnaskila en tækin eru hönnuð utan um það kerfi. Tækin leyna þó á sér því hægt er að snúa þeim við og nota sem spjaldtölvur og fylgir því sérstakur penni með. Það eina sem tækin bjóða ekki upp á er léttleikinn sem fylgir myndbandsupptökum á iPad og munu því nokkrar spjaltölvur vera til útláns á bókasafni fyrir nemendur sem vilja vinna þannig verkefni. Þó að afhending hafi dregist voru það samt nemendur í 10. bekk sem fengu að vígja tækin, en næsta vetur ættu bæði 9. og 10. bekkur að vera komnir með Chromebook.
 
 
 
 
 
 
 
 
 

Skapandi skautaverkefni

Í myndmennt öðlast nemendur tækifæri til að læra og tjá sig án orða. Þeir geta ýmist unnið á gagnrýninn hátt með málefni daglegs lífs eða með ímyndunaraflið. Í myndmenntinni hjá 4.bekk í morgun unnu nemendur með ímyndunaraflið, tengdu menningu sína og umhverfi saman og efldu skapandi og gagnrýna hugsun. Afurðin var glæsilegt myndverk af þeim sjálfum á skautum.

Vegna fyrirspurna um þjónustu talmeinafræðings

Skóla- og tómstundasviði hafa borist fyrirspurnir frá foreldrum og kennurum um hvaða þjónustu Ísafjarðarbær býður upp á fyrir börn á leik- og grunnskólaaldri með málþroska- og framburðarfrávik. Talmeinaþjónusta flokkast sem heilbrigðisþjónusta þó svo að sveitarfélögin sjái um að útvega fagfólkið.

Í vetur hefur enginn talmeinafræðingur verið starfandi á Ísafirði þar sem enginn með slíka menntun hefur fengist í verkið og þar af leiðandi hefur ekki verið hægt að bjóða upp á almenna þjónustu talmeinafræðings fyrir börn á leik- og grunnskólaaldri.  Í fámennari skólunum hefur þjónustan verið keypt af Tröppu í tal- og framburðarþjálfun, en þar sem Trappa býður aðeins upp á takmarkaðan fjölda plássa hafa þau ekki getað bætt við börnunum á Ísafirði.

Ísafjarðarbær hefur þó haft tök á því í vetur að fá Signýju Gunnarsdóttur talmeinafræðing til Ísafjarðar einu sinni í mánuði, til að skima fyrir og greina málþroskavanda barna með áherslu á áætlanagerð og eftirfylgd í leik- og grunnskólum.

Leik- og grunnskólar hafa svo í samvinnu við foreldra verið að vinna að snemmtækri íhlutun í málþroska og stuðla þannig að fyrirbyggjandi aðgerðum sem geta komið í veg fyrir langvarandi námsvanda.

Foreldrar barna með málþroskavanda hafa svo alltaf kost á að útvega börnum sínum sjálfir þjónustu hjá öðrum talmeinafræðingum eða fyrirtækjum sem bjóða upp á slíka þjónustu.

Það er von okkar að það takist sem fyrst að ráða til okkar talmeinafræðing, enda er hér um mikilvæga heilbrigðisþjónustu að ræða. Staðan hefur því miður verið þannig að talmeinafræðingar eru fáir og mörg sveitarfélög að leitast eftir að ráða þá til sín.

 

Skóla- og tómstundasvið ísafjarðarbæjar

Sólarpönnukökur

1 af 2

Í dag er sólardagur okkar Ísfirðinga og því við hæfi að bjóða upp á pönnukökur. Unglingar í heimilisfræði hjá Salome Elínu Ingólfsdóttur áttu ekki í vandræðum með að henda í nokkrar pönnsur og mátti finna ilminn í loftinu á göngum skólans.