VALMYND ×

Fréttir

Bingó 10. bekkjar

10. bekkur heldur jólabingó í sal skólans n.k. laugardag, 10. desember, kl. 15:00.  Spjaldið kostar 500 kr. og lofa krakkarnir veglegum vinningum. Nú er um að gera að drífa sig með alla fjölskylduna og njóta þess að spila bingó.

Jólaföndur á unglingastigi

Í morgun var hefðbundin stundaskrá brotin upp á unglingastigi og boðið upp á jólatengda stöðvavinnu. Krakkarnir völdu sér viðfangsefni s.s. þæfingu, gluggaskreytingar, piparkökugerð, kertagerð, pappírsgerð, jólakortagerð o.fl.
Krakkarnir voru ánægðir eftir lotuna, enda gott að breyta til stöku sinnum. Myndir frá þessari vinnu eru nú komnar hér inn á síðuna.

Söngleikurinn Anní

Föstudagskvöldið 2. desember frumsýndi listaval skólans söngleikinn Anní í sal skólans. Sýningin var mjög vel heppnuð og skemmtu áhorfendur sér konunglega.

Önnur sýning verður í dag, sunnudaginn 4. desember kl. 16:00 og þriðja og síðasta sýning mánudaginn 5. desember kl. 20:00. Við hvetjum alla til að sjá þessa sýningu, sem er fyrir alla aldurshópa. Aðgangseyrir er kr. 1.000 fyrir fullorðna og kr. 500 fyrir 16 ára og yngri.

Dagur íslenskrar tónlistar

Í dag, fimmtudaginn 1. desember var dagur íslenskrar tónlistar haldinn hátíðlegur. Allar útvarpsstöðvar landsins spiluðu þrjú íslensk lög samtímis kl. 11:15 og sameinuðust Íslendingar við viðtækin og sungu lög til heiðurs íslenskri tónlist.

G.Í. lét ekki sitt eftir liggja og tók þátt í þessu skemmtilega verkefni. Heyra mátti söng úr flestum kennslustofum og setti það skemmtilegan svip á þennan góða dag. Lögin sem sungin voru í morgun eru Kvæðið um fuglana eftir Atla Heimi Sveinsson við
texta Davíðs Stefánssonar, Manstu ekki eftir mér, lag Ragnhildar Gísladóttur við texta Þórðar Árnasonar og Stingum af eftir Vestfirðinginn Mugison.



1. des. hátíð

Nemendur í 8. -10. bekk skólans hafa undanfarin ár sett upp leikrit sem sýnt hefur verið á 1. des. hátíð skólans. Söngleikurinn Anní  varð fyrir valinu þetta árið og verður hann frumsýndur fyrir unglingastig skólans föstudaginn 2. des. kl. 20:00 í sal skólans. 

Tvær sýningar verða fyrir almenning, sú fyrri sunnudaginn 4. des. kl. 16:00 og sú síðari mánudaginn 5. des. kl 20:00.

Leikstjórar eru þau Elfar Logi Hannesson, Bjarney Ingibjörg Gunnlaugsdóttir og Sigurrós Eva Friðþjófsdóttir. Aðgangseyrir fyrir fullorðna er 1000 kr. en 500 fyrir 16 ára og yngri.

Reglur varðandi skólahald

Skólahald er ekki fellt niður vegna veðurs nema brýna nauðsyn beri til. Þá er það tilkynnt í RÚV (Rás 1 og Rás 2), Bylgjunni og á heimasíðu skólans svo fljótt sem verða má.  Telji forráðamaður nemanda veður eða veðurútlit varhugavert þótt engin tilkynning hafi borist frá skóla varðandi skólahald, ber honum að meta hvort óhætt sé að senda nemandann í skólann. Slík tilvik ber að tilkynna til ritara strax að morgni.

 

Ef óveður skellur á meðan nemendur eru í skólanum þá er yngstu nemendum ekki hleypt heim nema í strætó/skólabíl, með foreldrum skólafélaga eða að foreldrar sæki þá eða tryggi börnum sínum örugga heimferð á annan hátt.  Nemendum er tryggð aðstaða í skólanum svo lengi sem þarf. 

Varðandi skólabíla fyrir dreifbýli og fatlaða, þá meta bílstjórar þeirra ástandið í þeim tilvikum sem skólastarfi er ekki formlega aflýst. Ef þeir telja akstur ótryggan eða varhugaverðan og heimferð e.t.v. í óvissu þá hafa þeir sambandi við sitt fólk og skólann.


Foreldrar eru hvattir til að sjá svo um að börn þeirra komi klædd miðað við aðstæður og hafi ávallt nauðsynleg gögn og útbúnað meðferðis.  Sjálfsagt er að benda á mikilvægi þess að nemendur noti inniskó.  Gólf eru stundum blaut, köld og óhrein, sérstaklega í námunda við anddyri.

Skólanum færð gjöf

Þórdís Jensdóttir og Sveinfríður Olga Veturliðadóttir (mynd: www.bb.is)
Þórdís Jensdóttir og Sveinfríður Olga Veturliðadóttir (mynd: www.bb.is)

Síðastliðinn mánudag færði Þórdís Jensdóttir, fyrir hönd Foreldrafélags Grunnskólans á Ísafirði skólanum 100.000 krónur að gjöf. Ákvörðun um gjöfina var tekin s.l. vor af fráfarandi stjórn félagsins, þar sem innheimta félagsgjalda hafði gengið vel undanfarin ár og var ákveðið að láta skólann njóta góðs af því. „Skólann vantar ýmis tæki og okkur þykir peningunum vel varið á þennan hátt,“ segir Þórdís Lilja Jensdóttir gjaldkeri félagsins sem afhenti Sveinfríði Olgu Veturliðadóttur skólastjóra GÍ gjöfina fyrir hönd Foreldrafélagsins.
Ekki hefur verið ákveðið í hvað peningarnir verða nýttir, en þeim verður örugglega vel varið.

Opinn dagur

Á fimmtudaginn er 1. desember, fullveldisdagur Íslendinga. Þann dag er opinn dagur í skólanum og eru foreldrar og aðrir velunnarar hvattir sérstaklega til að líta við og fylgjast með skólastarfinu. Að sjálfsögðu eru aðstandendur velkomnir í heimsókn allt skólaárið, en sér í lagi þennan dag.
Skóladagurinn verður hefðbundinn og kennt samkvæmt stundaskrá.

Rýmingaræfing

Í morgun var rýmingaræfing í samstarfi við Slökkvilið Ísafjarðarbæjar. Æfingin tókst nokkuð vel og tók u.þ.b. þrjár mínútur að rýma alla bygginguna. Ekki spillti veðrið fyrir þar sem það var stillt og gott.

Eftir æfinguna var farið yfir það sem hægt er að bæta. Gæta þarf að því að allar brunabjöllur virki, dyr séu vel opnanlegar og allar útgönguleiðir séu vel greiðar.
Rýmingaræfingar í skólanum eru einu sinni á ári og er nauðsynlegt að æfa rýmingarleiðir og viðbrögð allra starfsmanna og nemenda ef upp kemur eldur. Einnig er skipulagt sérstakt söfnunarsvæði þar sem allir safnast saman eftir bekkjum og framkvæma þarf manntal þegar út er komið, bæði hjá nemendum og starfsfólki.

Nemendur færa skólasafni gjöf

Rannveig Halldórsdóttir og Arnar Bragi Steinþórsson nemandi í 1. bekk tóku við bókunum og listaverki Ómars Karvels.
Rannveig Halldórsdóttir og Arnar Bragi Steinþórsson nemandi í 1. bekk tóku við bókunum og listaverki Ómars Karvels.

Undanfarin ár hafa nemendur gefið út bókina ,,Börn skrifa sögur og ljóð" og selt fyrir jólin en þetta árið var ákveðið að hvíla útgáfuna. Í staðinn var sjóðurinn sem til var nýttur til bókakaupa fyrir bókasafn skólans. Nemendur í 1. og 10. bekk komu færandi hendi á degi íslenskrar tungu og færðu Rannveigu Halldórsdóttur á bókasafni skólans 20 valdar bækur fyrir alla aldurshópa, ásamt listaverki eftir Ómar Karvel Guðmundsson, nemanda í 10. bekk.