VALMYND ×

Fréttir

Læsisráðgjafar í heimsókn

Haustið 2015 gerðu Mennta- og menningarmálaráðuneyti og sveitarfélög með sér sáttmála um læsi ​og Ísafjarðarbær tók að sjálfsögðu þátt í því. Einn liður í átakinu fólst í því að ráðinn var hópur læsisráðgjafa sem hefur starfað í Menntamálastofnun í vetur. Tveir fulltrúar hópsins heimsóttu Grunnskólann á Ísafirði  fimmtudaginn 28. apríl og var það önnur heimsókn þeirra í skólann á þessum vetri. Þar voru á ferðinni þær Hlíf Brynja Baldursdóttir og Ingibjörg Þorleifsdóttir sem báðar eru grunnskólakennarar með mikla reynslu að baki. Ingibjörg er mörgum Vestfirðingum að góðu kunn, ekki síst Hnífsdælingum því hún kenndi í mörg ár við Barnaskólann í Hnífsdal.  Þær stöllur funduðu með skólastjórnendum og kennurum á hinum ýmsu aldursstigum þar sem farið var yfir stöðuna hjá okkur og spjallað vítt og breitt um lestrarkennslu og læsi.

Eitt af verkefnum læsisráðgjafahópsins hefur verið að semja lesfimipróf sem munu verða lögð fyrir alla grunnskólanemendur á Íslandi næsta vetur. G.Í. tók að sér ásamt fleiri skólum að „prufukeyra" þessi próf til að aðstoða við stöðlun þeirra og einmitt þessa dagana er verið að leggja þau fyrir alla nemendur skólans í annað sinn.

Mikil áhersla hefur verið lögð á lestur í skólastarfinu í vetur svo sem jafnan áður og vonandi ber það tilætlaðan árangur, því fátt er mikilvægara fyrir unga námsmenn en að vera vel læsir svo að þeir geti nýtt hæfileika sína til fulls. Munum líka að lestrarþjálfun er samstarfsverkefni og þar þurfa kennarar, foreldrar og nemendur að standa saman. Nú er Fossavatnsgangan framundan og engum dettur í hug að taka þátt í henni án þess að vera í góðri þjálfun. Segja má að námsárin sem nemendur okkar eiga framundan séu líka nokkurs konar maraþonganga – í lestri – og ekki síður nauðsynlegt að vera í góðu formi og vel undirbúinn fyrir hana. /HMH

Litla upplestrarkeppnin

1 af 3

Í gær hélt 4. bekkur Litlu upplestrarkeppnina, sem er orðin árlegur viðburður hér í skólanum. Nemendur buðu 3. bekk til áheyrnar, ásamt foreldrum og skólastjórnendum. Litla upplestrarkeppnin byggir á sömu hugmyndafræði og Stóra upplestrarkeppnin og ávallt er haft að leiðarljósi að keppa að betri árangri í lestri, munnlegri tjáningu og framkomu. Ávallt er lögð áhersla á virðingu og vandvirkni, allir nemendur eru með í liðinu og allir fá viðurkenningarskjal í lokin.
Krakkarnir í 4. bekk stóðu sig með stökustu prýði við upplesturinn. Einnig var fenginn gestalesari úr 7. bekk, hann Sveinbjörn Orri Heimisson, sem hafnaði í 3. sæti í Stóru upplestrarkeppninni í fyrri mánuði. Auk upplesturs voru tónlistaratriði, þar sem þeir Albert, Hákon, Guðmundur og Kristján Eðvald spiluðu á trommur og Tómas Elí spilaði á gítar.
Eftir dagskrána gæddu allir sér á gómsætum kræsingum.

Bókagjöf

Foreldrafélag Grunnskólans á Ísafirði og Penninn-Eymundsson tóku höndum saman í síðustu viku til að safna bókum fyrir bókasafn skólans. Átakið fór þannig fram að dagana 20.-25. apríl bauðst foreldrum og öðrum velunnurum skólans að kaupa bækur á 20% afslætti og ánafna bókasafni G.Í. Til að auðvelda val á bókum hafði skólabókasafnið lagt fram óskalista sem lá frammi í versluninni.

Í morgun kom starfsmaður bóksölunnar færandi hendi í skólann með fullan kassa af glænýjum og ilmandi bókum fyrir safnið. Kassinn innihélt átján nýútkomnar bækur og er ekki að efa að nemendur munu kunna vel að meta þær. Við kunnum öllum sem tóku þátt í átakinu bestu þakkir fyrir!

Börn og umhverfi

Auður Ólafsdóttir frá Rauða krossinum, ásamt nemendum.
Auður Ólafsdóttir frá Rauða krossinum, ásamt nemendum.
1 af 5

Í vetur býður Rauði krossinn á Ísafirði nemendum í 6. og 7. bekk upp á valnámskeið sem ber heitið Börn og umhverfi. Á námskeiðinu er farið í ýmsa þætti sem varða umgengni og framkomu við börn. Rætt er um árangursrík samskipti, aga, umönnun og hollar lífsvenjur, leiki og leikföng. Lögð er áhersla á um­fjöllun um slysavarnir og algengar slysahættur í umhverfinu ásamt ítarlegri kennslu í skyndihjálp. Að auki fá þátttakendur innsýn í sögu og starf Rauða krossins. Þessa dagana sitja um 20 krakkar námskeiðið og verða margs vísari varðandi þessi mál.

Kjaftað um kynlíf

Sigga Dögg kynfræðingur og höfundur bókarinnar Kjaftað um kynlíf mun heimsækja Ísafjörð í næstu viku. Á þriðjudag og miðvikudag mun hún hitta nemendur í 8. - 10. bekk og þriðjudagskvöldið 26. apríl verður foreldrafundur í sal GÍ klukkan 20:00. Nánari uppýsingar má sjá á meðfylgjandi mynd.

Holtaskóli sigraði Skólahreysti

Keppendur G.Í., þau Ívar Tumi Tumason, Einar Torfi Torfason, Dagný Björg Snorradóttir, Daníel Adeleye Wale, Ólöf Einarsdóttir og Guðbjörg Ásta Andradóttir.
Keppendur G.Í., þau Ívar Tumi Tumason, Einar Torfi Torfason, Dagný Björg Snorradóttir, Daníel Adeleye Wale, Ólöf Einarsdóttir og Guðbjörg Ásta Andradóttir.

Í kvöld fóru fram úrslit í Skólahreysti í Laugardalshöll. Tólf lið víðsvegar að af landinu kepptu sín á milli, eftir sigur í sínum riðlum, en upphaflega tóku 104 lið þátt í keppninni. Grunnskólinn á Ísafirði hafnaði í 12. sæti og stóðu krakkarnir sig með miklu sóma. Það fór svo að Holtaskóli í Reykjanesbæ sigraði keppnina, Síðuskóli á Akureyri hafnaði í 2. sæti og Stóru-Vogaskóli í því 3.

 

Kiwanismenn gefa 1. bekkingum hjálma

Undanfarin ár hafa Kiwanishreyfingin og Eimskip gefið nemendum 1. bekkjar hjálma til notkunar á reiðhjólum, hlaupahjólum, línuskautum og hjólabrettum. Yfir 20 þúsund börn hafa notið góðs af þessari gjöf og hafa hjálmarnir nú þegar sannað gildi sitt. Góð samvinna við grunnskóla landsins hefur skipt miklu og er markmiðið að stuðla að bættu öryggi barna í umferðinni, allir fái sinn hjálm og enginn verði útundan. 

Það voru glaðir nemendur í 1. bekk G.Í. sem tóku við þessari rausnarlegu gjöf frá Kiwanisklúbbnum Básum í dag og vonum við að allir verði duglegir að nota hjálmana.

Löng helgi framundan

Í dag vantar um 100 nemendur af 340 nemendum skólans. Margir eru farnir til Akureyrar á Andrésar andar leikana á skíðum, auk þess sem hópur nemenda af unglingastigi fylgir keppendum skólans í Skólahreysti, sem fram fer í Laugardalshöll í kvöld.

Á morgun er sumardagurinn fyrsti og á föstudaginn er vorfrí, þannig að framundan er löng helgi og vonum við að allir njóti vel.

Úrslitakeppni Skólahreysti

Keppendur G.Í. (Mynd: www.skolahreysti.is)
Keppendur G.Í. (Mynd: www.skolahreysti.is)

Í kvöld mun lið Grunnskólans á Ísafirði keppa til úrslita í Skólahreysti, ásamt 11 öðrum skólum víðs vegar að af landinu. Keppnin hefst kl. 20:00 í Laugardalshöll og verður sýnd í beinni útsendingu í Ríkissjónvarpinu.

Fyrir hönd G.Í. keppa þau Einar Torfi Torfason, Dagný Björg Snorradóttir, Daníel Adeleye Wale og Ólöf Einarsdóttir. Til vara eru þau Ívar Tumi Tumason og Guðbjörg Ásta Andradóttir. Guðný Stefanía Stefánsdóttir, íþróttakennari, er þjálfari liðsins, en auk hennar er hópur stuðningsmanna með í för. Við óskum keppendum góðs gengis og fylgjumst að sjálfsögðu vel með.

Bókasöfnun

Foreldrafélag Grunnskólans á Ísafirði stendur þessa dagana fyrir bókasöfnun fyrir skólasafn G.Í., í samstarfi við Pennann Eymundsson. Foreldrum og öðrum velunnurum er boðið að kaupa bækur á 20% afslætti dagana 20. - 25. apríl og ánafna bókasafni skólans. Starfsmenn Pennans Eymundssonar sjá svo um að koma þeim til skólans að átakinu loknu. Til að hjálpa til við valið hefur verið gefinn út óskalisti sem liggur frammi í verslun Pennans hér á Ísafirði.

Við hvetjum alla velunnara til að nýta sér þetta tilboð og efla þannig aðgang nemenda að fjölbreyttu lesefni í skólanum.