VALMYND ×

Fréttir

Nýtt skólaár

Líkt og undanfarin ár er nemendum Ísafjarðarbæjar séð fyrir nánast öllum gögnum sem þeir þurfa til náms í skólanum.  Gert er ráð fyrir að  nemendur í 1.-7. bekk sjái sér sjálfir fyrir skriffærum og nemendur unglingastigs sjái sér sjálfir fyrir skriffærum, reglustiku, gráðuboga og litum.  Nemendur fá allar stíla– og reikningsbækur og möppur í skólanum.

Skólasetning verður með sama sniði og í fyrra. Mánudaginn 22. ágúst mæta nemendur og foreldrar í viðtöl til umsjónarkennara þar sem nemendur setja sér markmið fyrir ábyrgð og vinnu í skólanum. Opnað verður fyrir skráningar í viðtölin 17. ágúst. 

Mánudaginn 22. ágúst fer 7. bekkur í skólabúðir að Reykjum í Hrútafirði. Haft verður samband við foreldra í vikunni á undan varðandi skipulag ferðarinnar.

Skólaslit

Í kvöld var Grunnskólanum á Ísafirði slitið í 141. skipti og fór athöfnin fram í Ísafjarðarkirkju. Hefð er fyrir því að nemendur úr 9. bekk kynni dagskrána og voru kynnar að þessu sinni þau Hildur Karen Jónsdóttir og Þórður Gunnar Hafþórsson.

Sveinfríður Olga Veturliðadóttir, skólastjóri, flutti ávarp og Anna María Daníelsdóttir flutti ávarp fyrir hönd útskriftarnema. 10. bekkur bauð upp á 3 tónlistaratriði, þar sem blásarakvartett lék eitt lag, Ína Guðrún Gísladóttir og Benedikt Hrafn Guðnason léku fjórhent á píanó og Pétur Ernir Svavarsson lék einnig eitt lag á píanó.

 

Eftirtaldar viðurkenningar voru veittar fyrir góðan námsárangur. 

8. bekkur:

Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir hlaut viðurkenningu Rotary klúbbsins á Ísafirði fyrir ástundun og framfarir. 

 

9. bekkur:

Ásthildur Jakobsdóttir hlaut viðurkenningu Rotary klúbbsins á Ísafirði fyrir ástundun og framfarir.

Í dag barst sérstök viðurkenning frá Tungumálaveri Laugalækjarskóla fyrir framúrskarandi námsárangur í pólsku.  Þá viðurkenningu hlaut Michał Głodkowski, nemandi í 9. bekk.

Í vetur luku 12 nemendur í 10. bekk smáskipaprófi sem er bóklegi hlutinn fyrir skipstjórnarréttindi á skip sem eru styttri en 12 metrar. Þetta er þriðja árið sem skólinn er í samstarfi við Fræðslumiðstöð Vestfjarða um kennslu í þessari valgrein, undir stjórn Guðbjörns Páls Sölvasonar, en margra ára hefð er fyrir henni við Grunnskólann á Ísafirði.  Nemendur sem luku prófi eru: 
Axel Thorarensen, Birgitta Brá Jónsdóttir, Birna Sigurðardóttir, Bjarni Pétur Marel Jónasson, Einar Torfi Torfason, Flosi Kristinn Sigurbjörnsson, Ína Guðrún Gísladóttir, Ívar Tumi Tumason, Jón Ómar Gíslason, Lára Sigrún Steinþórsdóttir, Óliver Eyþór Þórðarson og Tinna Dögg Þorbergsdóttir.

Eftirtaldar viðurkenningar voru veittar í 10. bekk:

Kvenfélagið Hlíf gaf eftirfarandi viðurkenningar fyrir verk- og listgreinar:

Viðurkenningu fyrir ástundun, framfarir, áræðni og jákvæðni í leiklist hlaut Ína Guðrún Gísladóttir.

Viðurkenningu fyrir framfarir og vinnubrögð í textílmennt hlaut Tatjana Snót Brynjólfsdóttir.

Viðurkenningu fyrir framfarir og skapandi vinnubrögð í myndmennt hlaut Pétur Ernir Svavarsson.

Viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur, dugnað, samviskusemi og metnað í heimilisfræði hlaut Bjarni Pétur Marel Jónasson.

 

Snjólaug Ásta Björnsdóttir hlaut viðurkenningu Rotary klúbbsins á Ísafirði fyrir ástundun og framfarir.

Stúdíó Dan gaf viðurkenningar fyrir góða ástundun og námsárangur í íþróttum. Þau verðlaun hlutu Birna Sigurðardóttir og Birkir Eydal.

Danska Menntamálaráðuneytið gaf viðurkenningu fyrir góða ástundun og námsárangur í dönsku og hlaut Pétur Ernir Svavarsson þau verðlaun.

Grunnskólinn á Ísafirði veitti eftirfarandi viðurkenningar:

Viðurkenningu fyrir góða ástundun og námsárangur í íslensku hlaut Ína Guðrún Gísladóttir.

Viðurkenningu fyrir góða ástundun og námsárangur í stærðfræði hlaut Pétur Ernir Svavarsson.

Viðurkenningu fyrir góða ástundun og námsárangur í samfélagsfræði hlaut Mikolaj Ólafur Frach.

Viðurkenningu fyrir góða ástundun og námsárangur í ensku hlaut Pétur Ernir Svavarsson.

Viðurkenningar fyrir góða ástundun og námsárangur í náttúrufræði hlutu þau Pétur Ernir Svavarsson og Anna María Daníelsdóttir.

Ísfirðingarfélagið í Reykjavík gaf gjöf til minningar um Hannibal Valdimarsson. Þessi viðurkenning er veitt nemanda í 10. bekk  fyrir lofsverða ástundun, framfarir í námi og virka þátttöku í félagsstarfi.   Í ár skiptu tveir nemendur með sér verðlaununum þau Bjarni Pétur Marel Jónasson og Guðrún Ósk Ólafsdóttir.

Viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur vorið 2016 hlaut Pétur Ernir Svavarsson.

 

Hér má sjá myndasafn frá athöfninni.

Starfsfólk Grunnskólans á Ísafirði þakkar árgangi 2000 samfylgdina í gegnum árin og óskar þeim velfarnaðar í framtíðinni.

Nýtt fréttabréf

Síðasta fréttabréf skólaársins er komið út. Þar er m.a. farið yfir þau fjölbreyttu verkefni sem nemendur hafa verið að fást við undanfarnar vikur.

Leikjadagur

Í dag var leikjadagur hjá 5. - 9. bekk. Krakkarnir hittust inni á Torfnesi og hófu leikinn á víðavangshlaupi. Eftir það var nesti og ýmsir leikir s.s. fótbolti, hlaupið í skarðið, gengið á stultum, stígvélakast, boðhlaup og fleira. Sólin mætti að sjálfsögðu á svæðið og gerði góðan dag enn betri. Hægt er að nálgast fjölmargar myndir hér inni á myndasíðu skólans.

Starfsdagur og skólaslit

Á morgun, fimmtudaginn 2. júní, er starfsdagur hér í skólanum.
Á föstudaginn mæta nemendur 2. - 7. bekkjar í sínar umsjónarstofur kl. 10:00 og taka við vitnisburðum. 1. bekkur mætir í foreldraviðtöl á uppgefnum viðtalstímum, hjá sínum umsjónarkennurum. Skólaslit verða svo í Ísafjarðarkirkju á föstudagskvöldið kl. 20:00 þar sem nemendur 8. - 10. bekkjar fá sína vitnisburði.

Vorhátíð foreldrafélagsins

Foreldrafélag skólans ásamt bekkjarfulltrúum standa fyrir vorhátíð Grunnskólans á Ísafirði miðvikudaginn 1. júní frá kl. 17 - 19 í portinu hjá hreystibrautinni. Boðið verður upp á grillaðar pylsur ásamt safa. Allir eru velkomnir með börnum sínum  til að njóta góðrar samverustundar síðasta dag skólans. Nokkrar stöðvar verða í boði með leikjum ásamt andlitsmálningu og eru allir hvattir til að mæta.
 

Skólanum færð gjöf

Arndís Baldursdóttir færir Sveinfríði Olgu Veturliðadóttur skólastjóra gjöfina, fyrir hönd árgangs 1970.
Arndís Baldursdóttir færir Sveinfríði Olgu Veturliðadóttur skólastjóra gjöfina, fyrir hönd árgangs 1970.

Árgangur 1970 kom færandi hendi í skólann nú fyrir helgi og gaf honum 100.000 krónur sem hópurinn átti uppsafnað eftir síðustu afmælismót og var mikil samstaða innan hópsins með þá ráðstöfun. Skólinn þakkar árgangnum kærlega fyrir þessa rausnarlegu gjöf, sem á svo sannarlega eftir að nýtast vel.

Danssýningar

Síðustu daga hafa nemendur 1. - 4. bekkjar sýnt dansfimi sína á danssýningum og hefur foreldrum verið boðið til áhorfs. Þessir krakkar eru virkilega efnilegir og frábært að geta boðið upp á danskennslu í skólanum, en Sigurrós Eva Friðþjófsdóttir hefur kennt af stakri snilld í mörg ár.

Vorverkadagur

Frá vorverkadegi 2015
Frá vorverkadegi 2015

Á morgun er vorverkadagur hjá skólanum í samstarfi við umhverfisdeild bæjarins. Allir árgangar fá þá ákveðið verkefni til úthlutunar, sem stuðlar að bættu umhverfi. Um hádegið býður mötuneytið svo öllum nemendum upp á grillaðar pylsur.

Hreyfivika

Frá og með deginum í dag og til sunnudags er Hreyfivika UMFÍ í gangi og taka HSV og Ísafjarðarbær þátt að venju. Frítt er í allar sundlaugar Ísafjarðarbæjar, farið er í gönguferðir og fjallgöngur, sjósund, kajak, jóga og ýmislegt fleira. Bæjarbúar eru hvattir til að taka þátt og auka hreyfingu þessa viku. Nemendur G.Í. létu ekki sitt eftir liggja í dag, þegar þeir söfnuðust saman úti í porti, héldu boltum á lofti og léku sér með svifdiska (frisbí).