Úrslit í söngkeppni SAMÍS
Agnes Sólmundsdóttir nemandi í Grunnskólanum á Þingeyri kom, sá og sigraði í söngkeppni SAMÍS sem haldin var í gærkvöld en hún sigraði einnig í Vestfjarðakeppninni í fyrra.
Í 2. sæti lentu þeir Ásgeir Kristján Karlsson og Baldur Björnsson frá G.Í., í því 3. Kristín Harpa Jónsdóttir frá G.Í., 4. sæti Birgir Knútur Birgisson frá Þingeyri og í því 5. hafnaði stúlknakórinn Hróðný frá G.Í.
Alls kepptu 16 atriði um þátttökurétt fyrir hönd Ísafjarðarbæjar í Vestfjarðakeppni Samfés, sem haldin verður í Súðavík föstudaginn 27. janúar n.k.
Það var samdóma álit allra sem að keppninni stóðu að öll atriðin væru hvert öðru glæsilegra og metnaðarfyllra. Það kom í hlut dómnefndar að skera úr um úrslit og var hún svo sannarlega ekki öfundsverð af því hlutskipti. Í dómnefndinni þetta árið sátu þau Elísabet Traustadóttir, Guðmundur Hjaltason og Sveinbjörn Hjálmarsson. Kynning var í höndum þeirra Helga Snæs Bergsteinssonar og Melkorku Ýrar Magnúsdóttur, nemenda í 10. bekk G.Í.
Skólinn óskar vinningshöfum og þátttakendum öllum innilega til hamingju með frábæra frammistöðu.
Deila