Úrslit í lestrarátaki
Búið er að draga í síðasta lestrarátaki Ævars vísindamanns og ljóst er að met var slegið í lestri bóka þetta árið. Samtals lásu íslenskir krakkar 91.734 bækur á tveimur mánuðum, en foreldrar þeirra 5.904 bækur. Þetta þýðir að á fimm árum hafa verið lesnar tæplega 330.000 bækur í lestrarátökum Ævars vísindamanns!
Veittar voru viðurkenningar fyrir mesta lestur hlutfallslega á hverju skólastigi og sömuleiðis þann skóla sem las hlutfallslega mest í heildina:
Yngsta stig: Álftanesskóli
Miðstig: Árskógarskóli, Dalvíkurbyggð
Efsta stig: Þelamerkurskóli
Yfir öll skólastig: Grunnskóli Drangsness
Allir þessir skólar fá það í verðlaun að vera skrifaðir inn í síðustu bókina í Bernskubrekum Ævars vísindamanns, Óvænt endalok, sem kemur út í júní. Guðni Th. Jóhannesson og Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, drógu eitt foreldri og fimm krakka úr lestrarmiðapottinum við hátíðlega athöfn í Borgarbókasafni, Grófinni. Hin sex heppnu sem dregin voru, verða gerð að persónum í Óvæntum endalokum.
Þá var einn nemandi frá hverjum þátttökuskóla dreginn út og fær sá áritað eintak af bókinni þegar hún kemur út. Sá heppni í Grunnskólanum á Ísafirði var Baltasar Goði Hafberg Hlynsson í 4.KB og óskum við honum til hamingju. Ennfremur óskum við öllum þátttakendum til hamingju með lesturinn.
Deila