VALMYND ×

Þemadagar

Á morgun og miðvikudag eru þemadagar í skólanum. Nemendum er þá raðað í 20 hópa, þvert á árganga og verða því um 20 nemendur saman í hóp, u.þ.b. tveir úr hverjum árgangi. Viðfangsefni þemadaga er ,,Samfélag", þar sem nemendur skapa samfélag sem þeir myndu vilja búa í. Það er að mörgu að hyggja þegar skapa þarf sjálfbært samfélag og margar spurningar sem vakna. Við hvað vinnur fólkið? Hvað þarf fólk nauðsynlega til að lifa af? Hvernig fær það mat? En peninga? Hvað með menntun, menningu, húsnæði, heilbrigðismál, skipulagsmál o.s.frv.?

Samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla eru sex grunnþættir menntunar, sem ætlað er að styrkja skólastarfið. Þessir þættir eru læsi, sjálfbærni, sköpun, jafnrétti, heilbrigði og velferð, og lýðræði og mannréttindi. Þemanám er tilvalið til að vinna með alla þessa þætti og höfum við valið okkur söguaðferðina (e. Storyline), sem er kennsluskipulag sem ýtir undir fjölbreytni í kennslu. Hún gefur kennurum og nemendum möguleika á að útfæra viðfangsefnið á skapandi hátt, þannig að allir nemendur geti tekið virkan þátt í verkefninu. Afrakstur skapandi vinnu er ekki eina markmið hennar heldur er það ferlið sem fer af stað sem skiptir ekki síður máli. Það verður því virkilega gaman að sjá útfærsluna á þessum samfélögum sem verða til við þessa vinnu og upplifa sköpunargleðina sem á eflaust eftir að verða allsráðandi.

 

Deila