VALMYND ×

Súgfirðingar höfðingjar heim að sækja

1 af 3

Síðastliðin sex ár hafa fyrirtækin Íslandssaga og Klofningur á Suðureyri, boðið öllum nemendum í 1. bekk G.Í. í heimsókn til að skoða fiskvinnsluna þeirra.  Þetta er mjög rausnarlegt boð þar sem rúta kemur og sækir krakkana í skólann og skilar þeim þangað aftur í lok heimsóknar. Í morgun var haldið af stað og þau Óðinn, Guðni, Oddný  og Ævar tóku á móti hópnum og sýndu þeim starfsemi sína. Starfsfólkið í beitningaskúrunum var heimsótt ásamt fiskvinnslunni og sáu krakkarnir allt vinnsluferlið.  Rúsínan í pylsuendanum þar var að allir fengu að setjast upp í lyftara og prófa að lyfta gafflinum á alla vegu og vakti það mikla lukku hjá börnunum.  Fylgst var með hvernig fisknum er pakkað í ýmsar umbúðir, en bæði er fiskur fluttur ferskur  til útlanda  í kælikössum, á meðan annar fiskur er frystur og sendur þannig út í heim.    

Hjá Klofningi var litið á þurrkaða fiskhausa og bein og fræddust krakkarnir um allt vinnsluferlið.  Ekki var laust við að sumum þætti lyktin slæm en það eru hraustir krakkar í 1. bekk og þeir létu ekki smá  lykt stoppa sig heldur skoðuðu  allt sem í boði var.   Í lok ferðarinnar var svo boðið til Elíasar í kaffihúsinu Kaupfélaginu og þar fengu allir ís.  Einnig leystu gestgjafarnir hópinn út með góðum gjöfum og fengu allir ferskan fisk í soðið, harðfisk og reyktan rauðmaga.  Það voru glaðir og ánægðir krakkar og kennarar sem héldu heim á leið í lok heimsóknarinnar. 

Hópurinn þakkar kærlega fyrir höfðinglegar móttökur á.   

Deila