Litla upplestrarkeppnin
Í gær fór Litla upplestrarkeppnin fram hér í skólanum. Nemendur 4. bekkjar taka þátt í keppninni en hún er undirbúningur fyrir Stóru upplestrarkeppnina sem haldin er reglulega í 7. bekk. Meginmarkmið keppninnar er að nemendur flytji íslenskt mál sjálfum sér og öðrum til ánægju og að þeir hafi vandvirkni og virðingu að leiðarljósi við flutninginn. Keppnishugtakið felur eingöngu í sér það markmið að keppa við sjálfan sig, að verða betri í dag enn í gær. Keppnin er í raun uppskeruhátíð eftir lestrarþjálfun vetrarins og var nemendum 3. bekkjar boðið á hátíðina ásamt foreldrum og öðrum velunnurum.
Krakkarnir í 4. bekk stóðu sig eins og hetjur og spreyttu sig á ýmsum bókmenntaverkum og var virkilega gaman á að hlýða. Auk þess lásu tveir nemendur úr 7. bekk ljóð og sögubrot og nokkrir nemendur 4. bekkjar léku á trommur og gítar á milli lestraratriða.
Deila