Jól í skókassa
Þessa dagana hafa 6., 7. og 8. bekkur verið í óðaönn að pakka inn jólagjöfum handa fátækum börnum í Úkraínu á vegum verkefnisins Jól í skókassa. Í morgun voru pakkarnir afhentir sr. Magnúsi Erlingssyni og Elínu H. Friðriksdóttur hjá Ísafjarðarkirkju, sem sjá svo um að koma þeim áfram til Reykjavíkur. KFUM annast svo sendingu þeirra til Úkraínu fyrstu dagana í janúar, en jólin eru haldin hátíðleg þar í landi 6. janúar.
Í Úkraínu búa um 46 milljónir manna en atvinnuleysi er þar mikið og ástandið víða bágborið. Á því svæði þar sem jólagjöfunum verður dreift ríkir mikil örbirgð. Íslensku skókössunum verður meðal annars dreift á munaðarleysingjaheimili, barnaspítala og til barna einstæðra mæðra sem búa við sára fátækt.
Það voru glaðir krakkar sem afhentu pakkana í kirkjunni í morgun, enda fylgir því góð tilfinning að gleðja aðra. Það má því með sanni segja að sælla er að gefa en þiggja.
Deila