Forvarnir gegn einelti
Þessa vikuna eru allir bekkir að vinna verkefni sem snúast um forvarnir gegn einelti. Misjafnt er eftir aldri og þroska hvað verið er að fást við.
10. bekkur fjallar um mismunandi birtingarmyndir eineltis eftir aldri gerenda og þolenda.
9. bekkur býr til glærusýningu um einelti fyrir yngri nemendur.
8. bekkur ætlar að setja fram skilgreiningu á einelti og birtingarmyndum þess.
7. bekkur býr til leikþætti og veggspjöld.
6. bekkur býr til veggspjöld gegn einelti á sem flestum tungumálum.
5. bekkur býr til myndir af stöðum þar sem nemendur telja líklegt að einelti fari fram á.
4. bekkur vinnur með eineltishringinn.
3. bekkur býr til fullyrðingar og spurningar um einelti og myndskreytir þær.
2. bekkur fær til sín glærusýningu frá 9. bekk.
1. bekkur gerir myndverk um tilfinningar.
Afrakstur þessarar vinnu verður sýnilegur á göngum skólans næstu daga. Nemendur skólans hafa líka hengt upp skilgreiningar á einelti á fjölförnum stöðum í bænum í von um að vekja fleiri il umhugsunar um þetta samfélagsvandamál. Við viljum endilega bjóða bæjarbúum að vera með okkur í þessari vinnu því að við vitum að einelti er ekki bara bundið við skólastofnanir. Við bjóðum ykkur að koma í skólann í hádeginu fimmtudaginn 8. nóv. og skrifa undir yfirlýsingu um að þið ætlið að leggja ykkar af mörkum í vinnu gegn einelti.
Yfirlýsingin er svohljóðandi:
Við undirrituð tökum ekki þátt í einelti og ætlum að leggja okkar af mörkum til að vinna gegn því.
Við bjóðum líka veggspjöld með þessari yfirlýsingu til sölu. Þau verða plöstuð og fallega myndskreytt. Þeim sem vilja kaupa veggspjöld til að hengja upp á sínum vinnustöðum er bent á að hafa samband á netfangið grisa@grisa.is. Kostnaðarverð fyrir veggspjald er 500 krónur en ef einhverjir vilja borga meira erum við að reyna að kaupa fleiri skjávarpa í skólann og hugsum okkur að nota ágóða af þessu (ef einhver verður) til þess.
Við hvetjum alla til að koma í anddyri nýja skólans eftir klukkan 11:30 á fimmtudaginn og skrifa undir yfirlýsinguna gegn einelti.
Deila