Duglegir unglingar í íþróttum
Það hefur verið að nóg að gera í íþróttum hjá unglingunum okkar undanfarið. Unglingameistaramót Íslands á skíðum var haldið hér fyrir páska og lönduðu Ísfirðingar nokkrum meistaratitlum. Jóhanna María Steinþórsdóttir sigraði í 5 km skíðagöngu 13-14 ára stúlkna og í flokki 15-16 ára sigraði Elena Dís Víðisdóttir. Í 5 km göngu drengja 13-14 ára sigraði Guðmundur Sigurvin Bjarnason og einnig með hefðbundinni aðferð. Hákon Jónsson sigraði bæði í 7,5 km göngu 15-16 ára og með hefðbundinni aðferð. Í tvíkeppni á gönguskíðum voru úrslitin einnig eftir bókinni, en þar sigruðu Hákon, Elena Dís, Guðmundur og Jóhanna María sína flokka. Í 4 x 1,2 km boðgöngu sigraði sveit 6 með þá Hákon Jónsson og Dag Benediktsson innanborðs og sveit 2, en í henni voru Elena Dís Víðisdóttir og Arna Kristbjörnsdóttir.
Á skíðamóti Íslands sem haldið var á Akureyri varð Elena Dís svo í 3. sæti í sprettgöngu og í 2. sæti í göngu með frjálsri aðferð. Elena gerði sér svo lítið fyrir og varð Íslandsmeistari í hefðbundinni göngu kvenna.
Í sprettgöngu Craftsport sem haldin var við upphaf skíðavikunnar, sigraði Elena Dís og varð sprettdrottning.
Elín Ólöf Sveinsdóttir, leikmaður 3. flokks BÍ var valin á úrtaksæfingar U-16 landsliðsins helgina 24. og 25. mars í Kórnum í Kópavogi og í Egilshöll. Hún mun svo vera í eldlínunni í sumar með nýstofnuðum meistaraflokki kvenna, sem spilar í 1.deild.
Svokölluð ,,Big jump" keppni var haldin á Seljalandsdal á skírdag, en þar var keppt í stökkum á snjóbrettum. Elvar Ari Stefánsson sigraði í þeirri keppni, þannig að greinilegt er að Ísafjörður á svo sannarlega nóg af ungum og hæfileikaríkum unglingum.