Dagur 9
Þá er fyrstu tveimur vikunum lokið eftir að samkomubann var sett á. Nú er komin reynsla á skipulagið sem við settum á fyrir tveimur vikum og starfsfólk skólans búið að vera ótrúlega skapandi og sveigjanlegt í að finna allskonar lausnir til að geta haldið skólastarfinu gangandi og þökkum við þeim fyrir mjög gott starf. Eins viljum við þakka foreldrum fyrir sinn þátt í þessu stóra verkefni, það hefur verið að gott að finna fyrir stuðningi þeirra og skilningi.
En eins og áður sagði er reynsla komin á skipulagið og nýjabrumið að fara af. Þessi stífi rammi og að vissu leyti einangrun sem börnin upplifa hér í skólanum veldur mörgum þeirra álagi og erfitt að halda þetta út allan daginn. Við ætlum því að gera nokkrar breytingar á síðustu vikunni fyrir páskafrí.
Nemendur í 1.-4. bekk verða í skólanum til kl. 12 og 5.-7. bekkur til kl. 11:30. Dægradvölin mun taka við börnum sem skráð eru í dægradvölina kl. 12 og strætóferðin færist til 12:05. Einnig verður strætó ferðinni fyrir 5.-7. bekk flýtt til 11:35.
8.-10. bekkur heldur sínu skipulagi nema við ætlum að færa tímana fram um hálftíma. Unglingarnir verða því frá 12:30-14:30 í skólanum. Vonandi verða þessar breytingar til að að létta álagi á börnin.
Við leggjum okkur fram um að fara að fyrirmælum landlæknis um að halda hópum aðskildum á skólatíma og hafa aldrei fleiri en 20 í hóp. Við hvetjum foreldra til að gera slíkt hið sama og passa að börn úr mismunandi hópum séu ekki saman eftir skóla. Hér er tengill á ráðleggingar landlæknis varðandi það.
Við minnum foreldra sem eru í skilgreindum forgangi starfsfólks í framlínustörfum að mati Almannavarndardeilda, að það þarf að sækja um beiðni um aukna skóla-og leikskólaþjónustu á hverjum föstudegi.
Við erum þakklát foreldrum sem keyra börnin sín og sækja eftir skóla til að auðvelda strætó að halda fjarlægðarmörk í vögnunum. Við bendum þó á að hliðið við Norðurveginn, þar sem strætó stoppar er bilað og verið er að bíða eftir aukahlut í það. Það er ekki ætlast til að ekið sé þar í gegn og að skólanum við Aðalstræti, hvorki á morgnana fyrir 8 né heldur eftir að skóla lýkur. Þetta er skilgreind skólalóð og foreldrar verða að bíða fyrir utan hana.