VALMYND ×

Umferðaröryggi

Nú er daginn tekið að lengja og þá vex umferð barna í umferðinni, bæði við leik og á leið til og frá skóla. Því er við hæfi að rifja upp nokkur atriði varðandi umferðaröryggi sem gott er að hafa í huga. Umferðarfræðsla í grunnskólum ber mestan árangur þar sem gott samstarf við heimili nemenda næst. Hlutverk heimilanna í umferðarfræðslu og forvörnum er mikilvægt því þar er mótunin sterkust.

Foreldrar eru hvattir til að nýta góða veðrið og ganga eða hjóla í skólann með börnum sínum svo fækka megi bílum sem aka að skólanum á morgnana. Að vera börnum sínum góð fyrirmynd í umferðinni er öflugasta fræðslan ásamt því að kenna þeim um lög og reglur sem eru í gildi.

Gæta þarf að því að öryggisbúnaður barna sé í lagi sem og notkun reiðhjólahjálma. Á þessari síðu er hægt að skoða fræðslumyndbönd um hjólreiðar og í þessum ágæta bæklingi er m.a. hægt að fræðast um atriði sem hafa ber í huga varðandi hjólreiðahjálma.

Á náms- og fræðsluvefnum www.umferd.is  er svæði ætlað foreldrum/forráðamönnum. Hugmyndin er að leita eftir samstarfi við foreldra um leiðir sem þeir telja að komi sér vel í umferðarfræðslunni. Allar hugmyndir og ábendingar eru vel þegnar og hægt er að senda þær á þetta netfang

Athygli er vakin á að samkvæmt 40. gr. umferðarlaga mega börn yngri en 7 ára ekki vera hjólandi í umferðinni nema í fylgd með 15 ára og eldri. Ekki má reiða farþega á reiðhjóli eða rafvespu, þó má vanur reiðhjólamaður sem náð hefur 15 ára aldri reiða barn yngra en 7 ára en ber þó að nota viðeigandi öryggissæti og búnað. Best er að nota hjálm, það er eina vitið. Börnum yngri en 15 ára er skylt að nota reiðhjólahjálma og viðeigandi hlífðarbúnað þegar þau ferðast um á reiðhjólum, rafvespum, hjólabrettum og línuskautum.

Deila