VALMYND ×

Umferðarkönnun nemenda

Auður Yngvadóttir, ökukennari, ásamt nemendum sínum frá Grunnskólanum á Ísafirði og Suðureyri.
Auður Yngvadóttir, ökukennari, ásamt nemendum sínum frá Grunnskólanum á Ísafirði og Suðureyri.

Nemendur í fornámi ökunáms, sem er valfag hér í skólanum, framkvæmdu umferðarkönnun hér í miðbænum nú fyrr í haust. Þeir skiptu með sér verkum og komu sér fyrir á fyrirfram ákveðnum stöðum í bænum þar sem auðvelt  var að hafa yfirsýn yfir hinar ýmsu aðstæður sem tengjast umferðinni. 

 

Niðurstöðurnar komu nemendum á óvart og þótti nokkuð sláandi hversu illa vegfarendur sinntu þeim fáu þáttum umferðarinnar sem kannaðir voru.  Sérstaklega voru það hámarkshraði, bílbeltanotkun og fjöldi þeirra sem ekki virtu stöðvunarskyldu, sem vakti athygli nemendanna.

  • Taldir voru 28 bílar sem óku inn í Krók af Hnífsdalsvegi. Af þeim óku 13 of hratt, eða 46% samkvæmt  hraðaskilti sem þar er.
  • Hvað stöðvunarskyldu varðar, þá stöðvaði aðeins einn ökumaður af sautján við stöðvunarskyldu við Hrannargötu gagnvart umferð um Fjarðarstræti,  eða aðeins 5,88%. Sláandi er hversu margir ökumenn virða ekki stöðvunarskylduna, þar sem þarna er um að ræða mjög hættuleg og blind gatnamót við stöðvunarskylduna. 
  • Þá voru einungis 53 farþegar af 94 með spennt öryggisbelti, eða 56,3% sem leið áttu um Skutulsfjarðarbraut þessar 40 mínútur sem könnunin tók. 

Þó svo könnunin sem slík sé ekki fyllilega marktæk sýna niðurstöður hennar að átaks sé þörf og mögulegt að nýta þær sem leiðarljós að bættri umferðarmenningu okkar bæjarbúa.

Deila