Tilfærslur vegna myglu
Í dag var í nógu að snúast vegna staðfestrar myglu á efri hæð gula hússins. Verkefni dagsins var að koma tæplega 70 börnum í 6. og 7. bekk, fyrir í öðrum rýmum skólans og þrífa og flytja flest allt sem þeim fylgir, þ.e. borð, stóla, tölvur, spjaldtölvur, ritföng, skápa og skúffur. Allur pappír var skilinn eftir þar sem ekki er auðvelt að mygluhreinsa hann. Nú sanna spjaldtölvurnar enn og aftur gildi sitt, en hægt er að nálgast flestallar námsbækur sem raf- og hljóðbækur í gegnum þær.
Lendingin var sú að 6. bekkirnir báðir flytjast á neðri hæð hvíta hússins, 7.bekkirnir báðir sameinast í dansstofu skólans og danskennslan flyst í matsalinn. Inngangur þeirra verður því Aðalstrætismegin.
Það var alveg ótrúlegt hvað allt þetta flutningsferli gekk vel og starfsmenn samhentir og lausnamiðaðir. Þeir lyftu svo sannarlega grettistaki og kláruðu þetta verkefni með miklum sóma. Á morgun koma 6. og 7. bekkur aftur í skólann og erum við viss um að vel muni fara um þau í þessum nýju rýmum fram á vorið.
Deila