VALMYND ×

Þorri blótaður

Föstudaginn 24. janúar hefst þorri sem er gamalt mánaðarheiti en samkvæmt forníslensku tímatali var þorri fjórði mánuður vetrar. Þorri var líka talinn erfiðasti vetrarmánuðurinn og því er stundum talað um að þreyja þorrann en það þýðir eiginlega að harka hann af sér eða að komast í gegnum hann, þola tímabundna erfiðleika. Fyrsti dagur þorra nefnist bóndadagur og einmitt þann dag er miður vetur. 

Á bóndadaginn verður hið árlega þorrablót 10. bekkinga G.Í. Nemendur og foreldrar hafa stundað æfingar af kappi fyrir blótið, þar sem dansfæturnir hafa verið liðkaðir. Einnig þarf að æfa fjöldasöng og skemmtiatriði, en þorrablótið er einn helsti og elsti menningarviðburðurinn í skólastarfinu. Þar koma nemendur 10. bekkjar saman ásamt fjölskyldum sínum og kennurum og fagna komu þorra að gömlum sið. Allir koma með sinn mat í trogi og einnig hefur sú hefð styrkst að stúlkur mæti í íslenskum þjóðbúningum.

Húsið opnar kl. 19:30 og hefst borðhald um kl. 20:00.

Deila