VALMYND ×

,,Þetta er það sem ég elskaði að gera"

Síðasta skólaár var Sveinfríður Olga Veturliðadóttir skólastjóri í námsleyfi, en hún lauk meistaraprófi í Stjórnun menntastofnana frá Háskóla Íslands síðastliðið haust.  Föstudaginn 23. febrúar kynnti hún svo afrakstur leyfisins, meistararitgerð sína  sem ber heitið Þetta er það sem ég elskaði að gera.  Ritgerðin byggir á rannsókn sem Olga gerði síðasta vetur en í henni tók hún tíu kennara af höfuðborgarsvæðinu og Vesturlandi tali með það að markmiði að skoða hver reynsla kennara er af áreitni nemenda og foreldra og hvaða áhrif hún hefur á liðan þeirra.  

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að áreitni nemenda og foreldra sé til staðar í grunnskólum. Þátttakendur hafa allir orðið fyrir áreitni af hendi nemenda og flestir átt í erfiðum samskiptum við foreldra. Áreitnin hefur áhrif á líðan þeirra, bæði í einkalífi og starfi og lýsa margir þeirra einkennum kulnunar í starfi, svo sem þreytu og örmögnun, minnkandi gleði og að þeir hugsi um að hætta í starfinu. Þeim finnst álagið mikið og erfitt að takast á við vanda nemenda, en margir nemendur virðast eiga í miklum hegðunarvanda, hver svo sem ástæðan er. Það er einnig umhugsunarvert hversu mikil áhrif erfið samskipti við foreldra hafa á líðan kennaranna og flestir þátttakendur lýsa atvikum þar sem foreldrar sýna óviðeigandi hegðun gagnvart þeim. Það virðist einnig nokkuð algengt að nemendur séu áreitnir við kennarana sína og hömlulausir í samskiptum við þá og aðra nemendur. 

Nemendur nota oft ljótt orðbragð við kennara sína, þeir hunsa þá og gera ekki það sem þeir eru beðnir um eða ætlast er til að þeir geri. Þeir hafa mjög oft truflandi áhrif á þá sem í kringum þá eru og taka mikið pláss. Slík hegðun nemenda hefur áhrif á líðan kennara og nefndu þátttakendur að þeir væru oft mjög þreyttir og orkulausir og að nemendur með hegðunarvandkvæði taki stundum yfir í kennslustundum og að þeir (kennararnir) komist ekki yfir það námsefni sem þeir ætluðu og skipulag þeirra fari í vaskinn. Sumir nefndu það líka að gleðin í starfinu væri minni og að þeir hlökkuðu ekki lengur til að mæta í vinnuna sína. 

Þátttakendur voru sammála um að þeir hafi oft haft samband við foreldra vegna erfiðleika barna þeirra. Flestir foreldrar taka því vel og fagna því þegar kennarar leita eftir samstarfi og leita lausna fyrir börnin og í þeim tilvikum er auðveldara að taka á þeim málum sem koma upp og stundum finnast lausnir í samstarfi allra aðila. En hins vegar er þó nokkuð um að foreldrar bregðist illa við, þeir saki kennarana um einelti og að þeir gefi börnunum ekki séns því þeir séu alltaf að hafa samband heim. Einnig geta foreldrar hafnað þeim úrræðum og lausnum sem í boði eru og þá sitja málin föst. Foreldrarnir eiga sumir það sameiginlegt að hafa misst sig á fundum og í símtölum við kennarana og kennararnir upplifa þá ógnandi.

Þátttakendur eru með ýmsar hugmyndir um hvað væri til bóta til að auðvelda starfið í skólunum. Þeir nefna flestir að farsælast væri að minnka hópana, í litlum hópum er minna um áreiti og þar af leiðandi minna um árekstra og minni líkur á að einhver missi stjórn á sér. Þeir nefna líka að teymiskennsla sé eftirsóknarverð að því leyti að þá eru alltaf tveir kennarar í hverjum hópi, það er árangursríkara að vera með tvo kennara og sleppa stuðningsfulltrúunum. Einnig dreifist ábyrgðin þegar tveir kennarar eru í hverjum hópi og starfið verður léttara.  

Að mati þátttakenda þarf að vera hægt að bregðast fyrr við agavandamálum og kippa nemendum út úr aðstæðum og jafnvel í sérstakt úrræði í skólanum þar sem nemandinn þyrfti svo að vinna sig aftur inn í bekkinn, og ofbeldi verður að hafa afleiðingar. Þeim finnst jafnframt að það þurfi fleira fagfólk í skólana, til dæmis einhvers konar unglingaráðgjafa sem er aðili sem nemendur geta leitað til og er talsmaður þeirra. Reykjavíkurborg er að setja hegðunarráðgjafa inn í skólana (einn í hverju hverfi) og verður forvitnilegt að fylgjast með hvernig það gengur.

Nokkrir þátttakendur nefna uppbyggingarstefnuna Uppeldi til ábyrgðar og segja að hún skili árangri í þeim skólum sem vinna samkvæmt henni. Þeir nefna einnig að það sé mikilvægt að skólastjórnendur fylgist vel með líðan starfsfólksins síns og styðji við það. Jafnframt er mikilvægt að þeir reyni að manna forföll stuðningsfulltrúa og láti það ekki sitja á hakanum eins og stundum vill verða.

Samvinna og samstarf við foreldra er þátttakendum hugleikin og það kemur fram í viðtölunum að það skipti miklu máli og spurning um hvernig hægt sé að virkja foreldra betur, til dæmis að sækja fræðslufundi í skólanum. Einn þátttakandi nefnir að nemendur verði að læra að bera virðingu hver fyrir öðrum frá upphafi skólagöngu og að leggja áherslu á virðingu, vináttu og umhyggju í öllu skólastarfinu.