VALMYND ×

Styrkur til leiðsagnarnáms

Úthlutað hefur verið úr Sprotasjóði Mennta- og menningarmálaráðuneytisins fyrir skólaárið 2021-2022. Grunnskólinn á Ísafirði hlaut 900.000 kr. ásamt Grunnskólanum á Suðureyri, Grunnskóla Önundafjarðar, Grunnskólanum á Þingeyri, Súðavíkurskóla og Grunnskóla Bolungarvíkur, til innleiðingar leiðsagnarnáms. Veittir voru styrkir til 42 verkefna að upphæð rúmlega 54 millj. kr. og var eitt annað verkefni á Vestfjörðum sem hlaut styrk.

Markmið verkefnisins er að innleiða leiðsagnarnám sem byggt er á aðferðafræði Shirley Clarke, í öllum grunnskólum á norðanverðum Vestfjörðum. Í stuttu máli má segja að leiðsagnarnám snúist um að hjálpa nemandanum til að komast frá þeim stað sem hann er á í náminu og að markmiði sínu. Með því móti verða gæði náms aukin sem skilar sér í valdeflingu nemenda og meiri námsáhuga og ábyrgðar á eigin námi. Ennfremur mun verkefnið efla fagvitund kennara og annars starfsfólks skólanna og bæta samstarfsvettvang á norðanverðum Vestfjörðum, þvert á sveitafélög.

Verkefnið mun standa yfir frá ágúst 2021 - desember 2023 og hefur Nanna Kristín Christiansen tekið að sér að leiðsegja skólunum gegnum þetta ferli. Hún er fyrrverandi verkefnastjóri hjá fagskrifstofu skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur og stýrði innleiðingu leiðsagnarnáms hjá Reykjavíkurborg. 

Styrkur þessi verður fyrst og fremst nýttur til námskeiða fyrir alla starfsmenn skólanna og kemur sér því afar vel við innleiðinguna. Lesa má nánar um styrkveitingar Sprotasjóðs hér.

Deila