VALMYND ×

Stattu með þér!

Í dag verður fræðslumyndin Stattu með þér! frumsýnd í öllum grunnskólum á landinu sem eiga þess kost, en myndin er á vegum Vitundarvakningar um kynferðislegt, andlegt, og líkamlegt ofbeldi gegn börnum. Hlutverk Vitundarvakningar er að kortleggja, samhæfa og stuðla að umfangsmiklu forvarnarstarfi í málaflokknum í samstarfi við viðkomandi aðila, huga að rannsóknum varðandi ofbeldi gegn börnum og stuðla að aukinni samfélagsvitund um málaflokkinn. Fræðsla og forvarnir beinast fyrst og fremst að börnum, fólki sem vinnur með börnum, réttarvörslukerfinu sem og almenningi.

Vefurinn www.stattumeðþér.is hefur verið opnaður formlega. Þar er hægt að nálgast myndina í heild sinni eða eftir köflum ásamt kennsluleiðbeiningum sem höfundar skrifuðu samhliða stuttmyndinni og lagið „Stattu með þér“ eftir Baldur Ragnarsson í Skálmöld. Myndin hefur verið textuð á sex tungumálum og eru þær útgáfur væntanlegar á vefinn.

Verkefnisstjórn Vitundarvakningar, Þórdís Elva Þorvaldsdóttir handritshöfundur, Brynhildur Björnsdóttir leikstjóri og aðrir aðstandendur Stattu með þér! óska nemendum, skólafólki og foreldrum til hamingju með fræðsluefnið, sem er fyrsta sinnar tegundar fyrir þennan aldurshóp, og vona að það nýtist þeim sem allra best. 

Deila