VALMYND ×

Skipulag 3.-17. nóvember

 

 

Ný reglugerð um takmörkun á skólastarfi gildir 3.-17. nóvember. Breytingarnar hjá okkur eru þær helstar að við skiptum skólanum í sóttvarnarhólf, og mega nemendur ekki fara á milli hólfa.  Það þýðir að í langflestum tilvikum færast verkgreinar inn í bekkjarstofur.  Íþróttir og sund falla niður og munu íþróttakennarar leitast við að vera með nemendum úti, eins og veður leyfir. Við höfum góða reynslu frá því í vor af því að hafa upphaf skólatíma sveigjanlegan og því gerum við það aftur núna. Nemendur geta því mætt til 8:15 án þess að fá seinkomu.

 

 Í 5.-10. bekk er grímuskylda þar sem við getum ekki tryggt tveggja metra fjarlægðarmörk og á það við um öll rými skólans, þannig að nemendur verða að vera með grímur allsstaðar, á leið inn og út úr skóla og einnig í kennslustundum og hvetjum við alla sem geta að nota eigin grímur í skólanum. Að öðrum kosti mun skólinn útvega þær. Nemendur eiga einnig að vera með grímur í strætó. Þar sem hópablöndun er ekki leyfð munu nemendur fá frímínútur inni í kennslustofum en kennarar munu fara út á hverjum degi með nemendur sína.  Þar sem við getum ekki komið hádegismat fyrir vegna fjöldatakmarkana og létta á álagi vegna grímunotkunarinnar mun verða kennsla til 12:15 en þá verður strætó.

Hámarksfjöldi er 25 í hverju rými fyrir sig. Hverjum árgangi á unglingastigi verður því skipt í tvo fasta hópa, og hver hópur í sér stofu. Nemendur sem eiga að mæta í fyrstu kennslustundum í íþróttir á Torfnes eiga að mæta í skólann. Matartíminn fellur niður og verður mataráskrift endurgreidd.

Í 1.-4. bekk gilda aðrar reglur, þar er 50 barna hámark í hverju rými og grímuskyldan á ekki við. Það verður óskertur skóladagur hjá þessum árgöngum. Frístund, dægradvöl og  mötuneyti verða á sínum stað með breytingum þó og til að koma öllum nemendum á yngsta stiginu fyrir í mötuneytinu borðar 2. og 4. bekkur fyrir framan matsal.

Við vonum svo sannarlega að þetta skipulag gangi upp hjá okkur og að við þurfum ekki að fara í meiri takmarkanir.
Í fyrstu covid bylgjunni í vor fundum við mikinn og góðan stuðning og skilning frá ykkur kæru foreldrar og með því að gera þetta saman þá náum við að gera okkar besta til að börnunum okkar líði sem best

Deila