VALMYND ×

Saman sköpum við skóla

Skólinn er stofnun sem hefur margháttað hlutverk í samfélaginu.  Eitt af hlutverkum hans er að þjóna þörfum samfélagsins hvað varðar uppeldi og menntun ungmenna.  Til að vel geti tekist til með þetta hlutverk þarf starfsfólk skólans að þekkja þessar þarfir svo hægt sé að velja skynsamlegar leiðir til að vinna að því að uppfylla þær.  En skólinn á líka að hafa mótandi áhrif í samfélaginu og á að vinna með samfélaginu að því að styrkja jákvæða samfélagsþætti og leiðrétta þætti sem hafa neikvæð samfélagsleg áhrif.  Samfélagið þarf að standa með skólanum í þessu.  Til að við getum sem best unnið saman að því að skapa skólann sem við viljum ,,eiga“ hér á Ísafirði er nauðsynlegt að við tölum saman um hvaða þættir það eru sem okkur finnast mikilvægir og hvernig við getum hjálpast að við að efla þá.  Í byrjun október héldum við samræðufund með nemendum þar sem þeir lýstu sinni sýn á skólastarfið og komu með tillögur um hvernig væri hægt að gera betur og nú er komið að foreldrum og starfsmönnum.  Laugardaginn 2. nóvember bjóðum við öllum foreldrum og starfsmönnum  til samræðufundar um skólastarfið.  Fundurinn verður í sal skólans og hefst  kl. 10:00 og gera má ráð fyrir að hann standi til 14:00.  Unnið verður með þjóðfundasniði að því að finna leiðir til að gera skólann okkar betri. Súpa og brauð verður í boði foreldrafélagsins í hádeginu.

Foreldrar eru beðnir um að skrá sig á netfangið sveinfridurve@isafjordur.is fyrir föstudaginn 1. nóvember. Skoðanir foreldra eru mikilvægar fyrir skólastarfið og því vonumst við til að sjá sem flesta.

Deila