VALMYND ×

Persónuvernd

Grunnskólanum er umhugað um persónuvernd og réttindi einstaklinga sem varða persónuupplýsingar. Ný persónuverndarstefna grunnskólans sem lögð verður fyrir bæjarráð á allra næstu dögum mun segja til um hvaða persónuupplýsingum skólinn safnar, hvers vegna, hversu lengi upplýsingarnar verða geymdar, hvert þeim kunni að verða miðlað og hvernig öryggi þeirra er tryggt. Stefnan er í samræmi við lög nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Að undanförnu hefur grunnskólinn unnið að því að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til hans á grundvelli laganna. Í því samhengi hefur grunnskólinn sett sér það markmið að hefja næsta skólaár í fullu samræmi við lögin. Einn liður í því krefst þátttöku foreldra sem tekin verður fyrir í fyrstu foreldraviðtölum skólaársins á morgun, fimmtudaginn 23.08.2018, en þar kemur skólinn til með að leita samþykkis hjá foreldrum fyrir myndatöku af börnum þeirra og birtingu myndefnis. Til að tryggja ytra öryggi persónuupplýsinga nemenda verður jafnframt leitast eftir því að fá foreldra til að undirrita trúnaðaryfirlýsingu um þau atriði skólastarfs og einstaka nemendur sem þeir kunna að fá vitneskju um í heimsóknum sínum í grunnskólanum. Sérstök athygli er vakin á því að þessar ráðstafanir eru gerðar með hagsmuni nemenda og vernd persónuupplýsinga þeirra að leiðarljósi.

Deila