VALMYND ×

Námskeið um uppbyggingu sjálfsaga

Hluti starfsmanna GÍ og dægradvalar á Ísafirði nýtti vetrarfrísdagana 23. og 24. nóvember s.l. til að sækja námskeið um Uppeldi til ábyrgðar – uppbygging sjálfsaga.  Skólinn hóf innleiðingu á stefnunni haustið 2006 og hafa starfsmenn farið áður á nokkur námskeið tengd henni, en það er nauðsynlegt að halda kunnáttu og þekkingu við og alltaf bætist eitthvað nýtt við. Að þessu sinni var námskeiðið haldið í Boston og voru þátttakendur í heildina um 120 frá 20 stofnunum víðs vegar af landinu. Fyrirlesarar voru þær Diane Gossen, sem er upphafsmaður þessarar nálgunar og samstarfskona hennar Judy Anderson. Þær hafa báðar komið til Íslands nokkrum sinnum og haldið námskeið fyrir Íslendinga erlendis.

Á námskeiðinu var farið í ýmsa þætti, meðal annars mikilvægi þess að þjálfa börn og unglinga í að ræða um tilfinningar sínar og átta sig á þörfum sínum. Einnig að stefnunni er ætlað að styðja starfsmenn skóla og foreldra við að móta sér skýra stefnu varðandi samskipti og agamál.  Skerpt var á hugmyndafræðinni sem byggist á því að einstaklingurinn geti tekið sjálfstæðar, siðferðilegar ákvarðanir varðandi eigin hegðun þegar hann er laus undan skömmum, hótunum, sektarkennd eða væntingum og loforðum um umbun.  Markmiðið er að styrkja einstaklinginn í að vera sá sem hann vill vera með hliðsjón af eigin sannfæringu frekar en að stjórnast út frá geðþótta annarra.