VALMYND ×

Litla kaffihúsið

Hér í skólanum fer fram margvíslegt nám sem er aldeilis ekki alltaf hefðbundið.  Í síðustu viku var sagt frá opnun kaffihúss nokkurra nemenda í 10.bekk. Í morgun endurtóku nokkrir krakkar í 8. og 9. bekk leikinn og hlaut kaffihúsið þeirra nafnið „Litla kaffihúsið". Nemendur skiptu með sér verkum því á alvöru kaffíhúsum falla að sjálfsögðu til hin ýmsu verk. Sumir tóku að sér að sjá um eldhúsið eða reiða fram kökur og brauðmeti, aðrir voru gjaldkerar og tóku við greiðslu frá gestunum, en notaðir voru sérstakir kennslupeningar. Svo þurfti að sjálfsögðu að taka á móti gestunum og þjóna þeim á allan þann hátt sem ber að gera á góðum kaffihúsum. Það var einróma álit gesta að krakkarnir hefðu staðið sig frábærlega – allt hefði smakkast vel og þjónustan hefði verið eins og best var á kosið.

Krakkarnir voru mjög áhugasamir við þetta verkefni og þess má geta að þau sáu ekki eingöngu um það að baka fyrir kaffihúsið heldur tíndu þau berin í sulturnar á skólalóðinni, ræktuðu basilikuna sem fór í pítsusnúðana og forræktuðu blómin sem þau skreyttu með borðin. Hugmyndasmiður verkefnisins er Guðlaug Jónsdóttir, heimilisfræðikennari, sem stýrt hefur hópnum af röggsemi og einstakri natni, sem endurspeglast í áhuga og gleði nemenda.

Deila