Innleiðing leiðsagnarnáms
Á síðasta skólaári sóttu allir grunnskólar á norðanverðum Vestfjörðum um styrk til Sprotasjóðs til innleiðingar leiðsagnarnáms. Sprotasjóður er sameiginlegur sjóður fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla og styður við þróun og nýjungar í skólastarfi í samræmi við stefnu stjórnvalda og aðalnámskrá. Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri (RHA) sér um umsýslu Sprotasjóðs skv. samningi við Mennta- og menningarmálaráðuneytið. Skólarnir allir hlutu í sameiningu styrk upp á kr. 900.000 til verkefnisins, sem mun standa yfir á árunum 2021-2023.
Í Aðalnámskrá grunnskóla (2011) segir að leggja skuli áherslu á leiðsagnarmat (Formative assessment) þar sem nemendur velta reglulega fyrir sér námi sínu með kennurum sínum til að nálgast eigin markmið í náminu og ákveða hvert skuli stefna. Segja má að hugmyndafræði leiðsagnarnáms sé rauði þráðurinn í gegnum Aðalnámskrá grunnskóla. Shirley Clarke er enskur sérfræðingur sem hefur skrifað fjölda bóka um leiðsagnarmat eða leiðsagnarnám (Assessment for learning) og haldið erindi og námskeið viða um heim, m.a. hér á landi. Aðferðirnar byggir hún á niðurstöðum virtra rannsókna en þær eru þróaðar í samstarfi við starfandi kennara. Leiðsagnarnám hefur verið skilgreint á ýmsa vegu, en út frá áherslum Clarke má í stuttu máli segja að leiðsagnarnám sé námsmenning þar sem megináherslan er á nám nemenda, fremur en kennslu kennarans. Skólar sem fylgja aðferðafræðinni hafa náð mjög góðum framförum í námi. Það er markmið okkar að efla leiðsagnarnám í skólunum þar sem þunginn er nám nemandans fremur en matið.
Eftirtalin hugtök einkenna skólasamfélag þar sem leiðsagnarnám er haft að leiðarljósi:
Hugarfar: Við viljum efla vaxandi hugarfar (growth mindset) nemenda gagnvart námi sínu. Þegar nemendur tileinka sér vaxandi hugarfar þá vita þeir að framfarir nást með þrautseigju. Ef þeir telja að hæfileikar séu eingöngu meðfæddir og annað hvort geti þeir eða geti ekki, þá hafa þeir fastmótað hugarfar (fixed mindset).
Mistök: Mistök skapa tækifæri til að læra. Enginn þarf að skammast sín fyrir að gera mistök, því allir mestu snillingar heimsins hafa gert fjölda mistaka og lært af þeim. Ef nemandinn þarf ekkert að hafa fyrir náminu, þá er verkefnið sennilega of auðvelt og nemandinn lærir lítið eða ekkert.
Heilinn: Líkt og vöðvar, þá eflist heilinn þegar hann er notaður.
Markmið: Nemendur eru meðvitaðir um hvað þeir eiga að læra í hverri kennslustund, ekki bara hvað þeir eiga að gera. Þeir stefna að ákveðnu markmiði og vita hvar þeir eru staddir á leið sinni þangað og hvenær þeir hafa náð markmiðinu.
Viðmið: Skýr viðmið um árangur eru skilgreind í upphafi. Nemendur er meðvitaður um til hvers er ætlast og hvað þeir þurfa að gera til þess á ná árangri.
Vinnubrögð: Nemendur vinna á fjölbreyttan og skapandi hátt og hafa ýmsa möguleika til að læra og sýna hvaða hæfni þeir hafa tileinkað sér. Þeir vinna ýmist einir, tveir og tveir eða í stærri hópum. Þeir skipta reglulega um samstarfsfélaga. Áhersla er lögð á meðvitund nemenda um eigið nám og að þeir beri ábyrgð á námi sínu í samræmi við þroska.
Endurgjöf: Kennarinn notar endurgjöf til þess að styðja nemendur í átt að námsmarkmiðum sínum. Í kennslustundum bendir kennarinn nemendunum reglulega á hvernig þeim gengur að ná markmiðum sínum og hvað þeir geta gert til að gera enn betur. Þannig geta nemendurnir strax nýtt endurgjöfina. Stundum getur endurgjöfin líka verið skrifleg Meginmarkmið með endurgjöf er alltaf að hjálpa nemendum til að ná markmiðum sínum. Nemendur gefa einnig hver öðrum endurgjöf út frá þeim viðmiðum sem hafa verið skilgreind, og nemendur meta sjálfir eigin vinnu. Áhersla er lögð á að kennarar nýti sér einnig þá endurgjöf sem þeir fá frá nemendum.
Námsfélagar/samráðsfélagar: Tveir og tveir nemendur ræða saman, ígrunda, svara saman spurningum, leysa verkefni eða skiptast á hugmyndum í afmarkaðan tíma. Það hjálpar nemendum að orða hugsanir sínar og þeir læra hver af öðrum. Nemendur skipta reglulega um námsfélaga/samráðsfélaga.
Samræður: Engar hendur upp, allir með. Kennarinn varpar reglulega fram spurningum, athugasemdum eða hugmyndum til að vekja áhuga og forvitni nemenda. Í stað þess að biðja nemendur um að rétta upp hönd dregur hann nafn þess sem segir frá, eftir að allir hafa fengið tíma til að hugsa. Þetta er gert svo allir í hópnum glími við spurninguna sem lögð er fyrir en sumir bíði ekki bara eftir því að þeir sömu svari alltaf fyrir þá.
Nanna Kristín Christiansen hefur tekið að sér að vera leiðbeinandi skólanna í þessu innleiðingarferli. Hún er uppeldis- og menntunarfræðingur og hefur starfað á sviði menntamála í áratugi og gefið út nokkrar bækur, þ.á.m. bókina Leiðsagnarnám - Hvers vegna, hvernig, hvað? sem er nokkurs konar leiðarvísir kennara og skólastjórnenda varðandi leiðsagnarnám. Nanna hefur tekið saman kynningu á leiðsagnarnámi fyrir foreldra og má nálgast þá kynningu hér.
Deila