VALMYND ×

Gestir frá Kaufering

Nemendur G.Í. í heimsókn í Kaufering s.l. haust
Nemendur G.Í. í heimsókn í Kaufering s.l. haust

Í september fóru nokkrir nemendur úr 10. bekk til Kaufering í Þýskalandi og dvöldu þar á einkaheimilum hjá jafnöldrum sínum í góðu yfirlæti. Nú eru þýsku krakkarnir komnir til Ísafjarðar og eru að endurgjalda heimsóknina. Í för með þeim eru tveir kennarar. Hópurinn kom til Íslands s.l. fimmtudag,  flaug til Ísafjarðar á laugardaginn og fer til baka næsta fimmtudag. Það er ýmislegt á dagskrá hjá þeim, m.a. heimsókn í Grunnskóla Þingeyrar, kíkt á íslenska hesta, farið í skoðunarferð um Haukadal og fiskeldisstöðina, og að sjálfsögðu komið við í sundlauginni á Þingeyri. Þau tóku þátt í skólastarfinu hér í skólanum í dag, kynntu sér Fablab og síðan var haldið á menningarkvöld 10. bekkjar í Edinborgarhúsinu nú í kvöld.

Á morgun, miðvikudag, verður svo farið til Suðureyrar í heimsókn í fyrirtækin Íslandssögu og Klofning. Kajakróður var á dagskrá og vonandi viðrar nógu vel til að hægt verði að standa við það. Hópurinn snæðir ásamt gestgjafafjölskyldunum fiskrétti í Tjöruhúsinu síðasta kvöldið og síðan verður slegið upp balli hér í skólanum.

Svona heimsóknir eru afskaplega gefandi og lærdómsríkar, bæði fyrir gestgjafa og gesti og mikils virði að kynnast menningu annarra þjóða og styrkja vináttuböndin. ​