VALMYND ×

Foreldraverðlaun Heimilis og skóla

Opnað hefur verið fyrir tilnefningar til Foreldraverðlaunanna 2013 sem landssamtökin Heimili og skóli standa fyrir. Verðlaunin verða veitt fyrir metnaðarfullt foreldrastarf sem eflt hefur samstarf foreldra, nemenda og skólafólks og stuðlað að jákvæðum samskiptum heimilis og skóla.

Markmið Foreldraverðlauna Heimilis og skóla er að vekja athygli á því gróskumikla starfi sem fer fram innan leik-, grunn og framhaldsskóla, og þeim mörgu verkefnum sem stuðla að öflugu og jákvæðu samstarfi heimila, skóla og samfélagsins.

Foreldraverðlaun eru veitt til eins verkefnis/viðfangsefnis. Ef dómnefnd hefur þótt ástæða til, hafa jafnframt verið veitt sérstök hvatningar- eða dugnaðarforkaverðlaun. Ekki er þó hægt að tilnefna dugnaðarfork eða tilnefna aðila til hvatningarverðlauna.

Heimili og skóli – landssamtök foreldra standa fyrir Foreldraverðlaunum en samtökin sjálf, stjórn eða starfsfólk  tilnefna ekki verkefni, heldur vinnur dómnefnd úr innsendum tilnefningum. Niðurstöður dómnefndar byggjast á greinargerðum og rökstuðningi þeirra aðila sem tilnefndu.

Vakin er athygli á að verðlaun eru aðeins veitt til verkefnis/viðfangsefnis sem tilnefnt hefur verið með formlegum hætti  á rafrænu eyðublaði á vefsvæði landssamtakanna.