VALMYND ×

Uppbyggingarstefnan

Upphafsmaður stefnunnar Uppeldi til ábyrgðar er Diane Gossen. Hún hefur unnið með kennurum víða um heim og meðal annars oft komið til Íslands, og alla leið til Ísafjarðar, til að halda námskeið.  Helstu markmið stefnunnar er að kenna börnum og unglingum sjálfstjórn og ábyrga hegðun með því að gefa þeim tækifæri til að bæta fyrir mistök sín og kenna þeim að mæta þörfum sínum á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Litið er á hugtakið mistök sem eðlilegan þátt í lærdómsferli, það sé eðlilegt að gera mistök og að mistökin nýtist sem ákveðið skref í þroska. Einstaklingur fær tækifæri til að takast á við mistök sín á uppbyggilegan hátt, skoða hvað það var sem hann gerði rangt og hvað hann hefði getað gert öðruvísi.Hann lærir að bæta fyrir mistök sín og finnur hvernig hann styrkist af því. Þetta næst ekki ef hann er skammaður eða niðurlægður. Áhersla er lögð á að þjálfa nemendur í að skoða eigin hegðun og ræða um hvernig þeir ætli að bregðast við sambærilegum aðstæðum næst í stað þess að gera sömu mistökin aftur. Þegar nemendur eru lausir undan hótunum, sektarkennd og loforðum um umbun fær hann tækifæri til að meta lífsgildi sín og styrkjast í að vera ávallt besta útgáfan af sjálfum sér.

Gossen skilgreinir uppbyggingu á þennan hátt: „Að skapa skilyrði til að barnið geti lagfært mistök sín, snúið aftur til hópsins og vaxið við hverja raun.”

Lögð er áhersla á að styrkja einstaklinginn í að vera sá sem hann vill vera með hliðsjón af eigin sannfæringu frekar en að stjórnast af geðþótta annarra.  Til að hjálpa honum inn á þessa braut og er það meðal annars gert með að svara spurningunum eins og;  Hvernig manneskja vil ég vera? og hvað þarf ég að gera til að ná takmarki mínu? Gengið er út frá því að sjálfstjórnarkenningin sé aðalviðmiðiðið og bekkjargildin leiðarljósið. Ytri stýring á hegðun er hins vegar notuð til vara þegar nemandinn hefur farið yfir skilgreind mörk og stutt inngrip duga ekki til að koma honum aftur inn á það spor að lifa í sátt við gildi hópsins. Stefnan miðar einnig að því að þjálfa þau í að ræða um tilfinningar og átta sig á þörfum sínum.

 

Uppbygging auðveldar uppalendum og þeim sem vinna með börnum/unglingum að setja sér skýr mörk varðandi samskipti og aga.

Uppeldi til ábyrðar stuðlar að jákvæðum samskiptum, hvetur til sjálfstæðrar hugsunar og þroskar jákvætt gildismat.

Öll hegðun hefur tilgang, við gerum ekkert að ástæðulausu.

  1. Allir gera mistök. Þau eru eðlileg, enginn er fullkominn.
  2. Fólk er oftast meðvitað ef það hefur gert eitthvað rangt. Flest börn vita ef þau hafa meitt einhvern eða eyðilagt eitthvað.
  3. Gagnrýni og ásakanir setja fólk í varnarstöðu. Það setur upp varnarmúr þegar ráðist er að því og notar þá mikla orku í að reyna að réttlæta gjörðir sínar, þetta á líka við um börn. Það standa allir vörð um sjálfsvirðingu sína.
  4. Allir geta lært betri hegðun og jákvætt hugarfar auðveldar það. Ef litið er á börn sem ábyrg, fús og hæf til þess að breyta rétt þá hafa þau hvatningu til þess að sækja fram á við.
  5. Fólk sem fær tækifæri til að gera úrbætur styrkist. Mikilvægt er að fá tækifæri til þess að bæta fyrir mistök sín.
  6. Fólk felur ekki mistök sín eða segir ósatt ef það trúir og fær tækifæri til þess að bæta fyrir mistök sín.
  7. Að læra sjálfsaga er skapandi ferli og eflir hæfni til þess að leysa vandamál.
  8. Ef fólk hefur sjálft fengið tækifæri til uppbyggingar er það örlátara við aðra. Þau börn sem læra að bæta fyrir mistök sína eiga auðveldara að fyrirgefa mistök annarra. Þegar þau verða fullorðin hafa þau ekki þörf fyrir að refsa.

 

 

Til að ná markmiðum stefnunnar eru ýmsar aðferðir notaðar eins og kenna börnum um grundvallarþarfirnar, um hlutverk hvers og eins, friðarborðið (þar sem nemendur læra að greiða sjálfir úr ágreiningi) og um óskaveröldina. Hér á eftir verða þessar aðferðir kynntar nánar.

Þessi kafli er unninn upp úr hefti sem nefnist Mitt og þitt hlutverk. Magni Hjálmarsson tók efnið saman en það er byggt á verkum Diane Gossen.

Í heftinu segir að það að greina hlutverkaskiptingu í skóla sé í raun fólgið í að lýsa því hvað hver og einn á að gera. Þegar hlutverk hvers og eins eru skýr, jafnt starfsmanna sem nemenda, eru mun meiri líkur á því að skólastarfið geti gengið vel fyrir sig því engum líður vel í óvissu hlutverki.

Mælt er með því að skólar, sem hyggjast vinna eftir uppbyggingarstefnunni, fari í gegnum þetta ferli með kennurum og öðrum starsmönnum, þ.e. skilgreini verkaskiptingu allra. Reynslan er sú að fólki finnst slík vinna veita öryggi og það viti betur til hvers er ætlast af því.

Uppbyggingarstefnan miðar að því að starfsfólkið vinni náið saman og leysi mál í eindrægni. Í uppbyggingarskólum má segja að hlutverk skólastjórans sé í raun frekar leiðtogahlutverk en hlutverk þess sem gefur beinar skipanir að ofan. Skólastjórinn - leiðtoginn þarf að hafa næmt auga, fylgjast vel með og vera tilbúinn til þess að grípa inn í þegar einhver er óviss í hlutverki sínu. Þegar það gerist þarf hann að vera fær um að aðstoða viðkomandi við að gera sér skýra grein fyrir því hlutverki sem honum er ætlað og hvað hann þarf að hafa að leiðarljósi.

Hver árgangur fer yfir hlutverkin á hverju ári. Umsjónarkennarar, verkgreinakennarar, íþróttakennarar fara allir yfir þetta með sínum hópum.

Það er nauðsynlegt að allir geri sér grein fyrir sínu hlutverki og að ekki sé óvissa. Það veitir öryggi að vita til hvers er ætlast af sér.

Gott er að nota þetta við margvíslegar aðstæður þegar eitthvað nýtt kemur upp. Hvert er mitt/þitt hlutverk í strætó, á jólaballinu, í matsalnum o.s.frv

 

 

 

Grundvallarþarfirnar eru arfgengar og sameiginlegar öllum mönnum og drífa okkur áfram.  Við erum sjálf ábyrg fyrir því hvernig við sinnum þörfum okkar en við þurfum líka að skapa skilyrði svo aðrir gti líka sinnt þörfum sínum af ábyrgð. Þarfirnar eru: Öryggi, tilheyra (umhyggja), áhrif, frelsi og gleði.

 

Í skólanum okkar eiga allir að vera öruggir, hafa vinnufrið, njóta virðingar og vera lausir við:

  • ofbeldi
  • vopn
  • fíkniefni
  • ógnanir, ögranir og hótanir
  • meðvitaða truflun á skólastarfi
  • skemmdarverk og þjófnaði
  • mismunun vegna uppruna eða litarháttar

Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að sjá til þess að svo sé.