Um Uppeldi til ábyrgðar
Upphafsmaður stefnunnar Uppeldi til ábyrgðar er Diane Gossen. Hún hefur unnið með kennurum víða um heim og meðal annars oft komið til Íslands, og alla leið til Ísafjarðar, til að halda námskeið. Helstu markmið stefnunnar er að kenna börnum og unglingum sjálfstjórn og ábyrga hegðun með því að gefa þeim tækifæri til að bæta fyrir mistök sín og kenna þeim að mæta þörfum sínum á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Litið er á hugtakið mistök sem eðlilegan þátt í lærdómsferli, það sé eðlilegt að gera mistök og að mistökin nýtist sem ákveðið skref í þroska. Einstaklingur fær tækifæri til að takast á við mistök sín á uppbyggilegan hátt, skoða hvað það var sem hann gerði rangt og hvað hann hefði getað gert öðruvísi.Hann lærir að bæta fyrir mistök sín og finnur hvernig hann styrkist af því. Þetta næst ekki ef hann er skammaður eða niðurlægður. Áhersla er lögð á að þjálfa nemendur í að skoða eigin hegðun og ræða um hvernig þeir ætli að bregðast við sambærilegum aðstæðum næst í stað þess að gera sömu mistökin aftur. Þegar nemendur eru lausir undan hótunum, sektarkennd og loforðum um umbun fær hann tækifæri til að meta lífsgildi sín og styrkjast í að vera ávallt besta útgáfan af sjálfum sér.
Gossen skilgreinir uppbyggingu á þennan hátt: „Að skapa skilyrði til að barnið geti lagfært mistök sín, snúið aftur til hópsins og vaxið við hverja raun.”
Lögð er áhersla á að styrkja einstaklinginn í að vera sá sem hann vill vera með hliðsjón af eigin sannfæringu frekar en að stjórnast af geðþótta annarra. Til að hjálpa honum inn á þessa braut og er það meðal annars gert með að svara spurningunum eins og; Hvernig manneskja vil ég vera? og hvað þarf ég að gera til að ná takmarki mínu? Gengið er út frá því að sjálfstjórnarkenningin sé aðalviðmiðiðið og bekkjargildin leiðarljósið. Ytri stýring á hegðun er hins vegar notuð til vara þegar nemandinn hefur farið yfir skilgreind mörk og stutt inngrip duga ekki til að koma honum aftur inn á það spor að lifa í sátt við gildi hópsins. Stefnan miðar einnig að því að þjálfa þau í að ræða um tilfinningar og átta sig á þörfum sínum.
Uppbygging auðveldar uppalendum og þeim sem vinna með börnum/unglingum að setja sér skýr mörk varðandi samskipti og aga.
Uppeldi til ábyrðar stuðlar að jákvæðum samskiptum, hvetur til sjálfstæðrar hugsunar og þroskar jákvætt gildismat.
Öll hegðun hefur tilgang, við gerum ekkert að ástæðulausu.