Hlutverkin
Þessi kafli er unninn upp úr hefti sem nefnist Mitt og þitt hlutverk. Magni Hjálmarsson tók efnið saman en það er byggt á verkum Diane Gossen.
Í heftinu segir að það að greina hlutverkaskiptingu í skóla sé í raun fólgið í að lýsa því hvað hver og einn á að gera. Þegar hlutverk hvers og eins eru skýr, jafnt starfsmanna sem nemenda, eru mun meiri líkur á því að skólastarfið geti gengið vel fyrir sig því engum líður vel í óvissu hlutverki.
Mælt er með því að skólar, sem hyggjast vinna eftir uppbyggingarstefnunni, fari í gegnum þetta ferli með kennurum og öðrum starsmönnum, þ.e. skilgreini verkaskiptingu allra. Reynslan er sú að fólki finnst slík vinna veita öryggi og það viti betur til hvers er ætlast af því.
Uppbyggingarstefnan miðar að því að starfsfólkið vinni náið saman og leysi mál í eindrægni. Í uppbyggingarskólum má segja að hlutverk skólastjórans sé í raun frekar leiðtogahlutverk en hlutverk þess sem gefur beinar skipanir að ofan. Skólastjórinn - leiðtoginn þarf að hafa næmt auga, fylgjast vel með og vera tilbúinn til þess að grípa inn í þegar einhver er óviss í hlutverki sínu. Þegar það gerist þarf hann að vera fær um að aðstoða viðkomandi við að gera sér skýra grein fyrir því hlutverki sem honum er ætlað og hvað hann þarf að hafa að leiðarljósi.
Hver árgangur fer yfir hlutverkin á hverju ári. Umsjónarkennarar, verkgreinakennarar, íþróttakennarar fara allir yfir þetta með sínum hópum.
Það er nauðsynlegt að allir geri sér grein fyrir sínu hlutverki og að ekki sé óvissa. Það veitir öryggi að vita til hvers er ætlast af sér.
Gott er að nota þetta við margvíslegar aðstæður þegar eitthvað nýtt kemur upp. Hvert er mitt/þitt hlutverk í strætó, á jólaballinu, í matsalnum o.s.frv