VALMYND ×

Samræmd könnunarpróf að baki

Í morgun lauk síðasta samræmda könnunarprófinu hjá 9. bekk, en árgangurinn hefur þreytt próf í íslensku, stærðfræði og ensku síðustu daga. Fyrirlögnin gekk eins og best verður á kosið og engir tæknilegir örðugleikar. Nemendum var skipt í tvo hópa þar sem fyrri hópurinn tók prófið kl. 8:20 og sá seinni um leið og fyrri hópurinn lauk sínu prófi. Nemendum var boðið upp á morgunverð kl. 8:00 áður en próftaka hófst.

Tilgangur prófanna er að meta hvernig markmiðum aðalnámskrár hefur verið náð og veita endurgjöf til nemenda, foreldra, kennara og fræðsluyfirvalda. Með þessari endurgjöf er til dæmis hægt að fá upplýsingar um þekkingu og hæfni hvers nemanda, hvort breyta þurfi áherslum í námi, hvað þurfi að bæta og almennt hver séu gæði menntunar.