VALMYND ×

Vinaliðum þökkuð vel unnin störf

Í dag voru vinaliðar í 4. - 7. bekk kallaðir á sal til að þakka þeim vel unnin störf. Hlutverk vinaliða er fyrst og fremst að skapa skemmtilegt og notalegt leikjaumhverfi í frímínútum, stjórna leikjum og vera til fyrirmyndar í hvívetna. Vinaliðar fá leiðtogaþjálfun og námskeið undir stjórn Árna Heiðars Ívarssonar og fá því töluvert út úr sínu hlutverki.

Vinaliðum var boðið í sund til Bolungarvíkur í morgun, í ,,musteri vatns og vellíðunar" eins og sundlaugin er stundum kölluð. Þar átti hópurinn skemmtilega stund og kom svo til baka í skólann um hádegisbilið.

Eftir áramót verða nýir vinaliðar kjörnir af nemendum, en við það val eru nemendur skólans sérstaklega beðnir um að tilnefna einstaklinga sem þeim finnst vera vingjarnlegir og sýni öðrum nemendum virðingu.