VALMYND ×

Vinaliðaskipti

Síðastliðinn föstudag hittust nemendur 4. - 6. bekkjar á sal skólans til að þakka fráfarandi vinaliðum vel unnin störf frá skólabyrjun. Að því loknu fóru vinaliðarnir ásamt Atla Frey Rúnarssyni, öðrum umsjónarmanni verkefnisins, inn á Torfnes með sleða og þotur og nutu útivistar og var svo boðið upp á kakó og kringlu.

Vinaliðaverkefnið hefur verið starfrækt hér við skólann á fimmta ár og hefur það gengið vonum framar. Því er ætlað, samhliða góðum eineltisáætlunum, að draga úr einelti og auka vellíðan og samheldni nemenda í skólum. Helstu markmið verkefnisins eru að stuðla að fjölbreyttari leikjum í frímínútum, leggja grunn sem gerir nemendum kleift að tengjast sterkum vináttuböndum, minnka togstreitu milli nemenda og hampa góðum gildum, svo sem vináttu, virðingu og því að allir fá að taka þátt. Það verður því verkefni nýrra vinaliða að taka við keflinu og virkja sem flesta í frímínútum í fjölbreyttum leikjum.