VALMYND ×

Vinaliðar ljúka störfum

Allt frá haustinu 2014 hefur Grunnskólinn á Ísafirði verið þátttakandi í hinu svokallaða Vinaliðaverkefni. Vinaliðaverkefnið er forvarnarverkefni sem hvetur nemendur til meiri þátttöku í afþreyingu í frímínútum. Einnig miðar það að því að auka jákvæð samskipti, hreyfingu og vellíðan og vinnur þannig gegn einelti. Markmið verkefnisins er að bjóða nemendum fjölbreyttara úrval afþreyingar í frímínútunum, þannig að nemendur skólans finni eitthvað við sitt hæfi. Nemendur í 4.-6. bekk velja einstaklinga sem fá hlutverk Vinaliða en þeir hafa svo umsjón með að koma leikjum og afþreyingu í gang í frímínútum og taka til eftir leikina.

Verkefnið er norskt að uppruna og í dag eru um 1400 grunnskólar í Noregi, Svíþjóð og á Íslandi sem taka þátt í því, en Árskóli á Sauðárkróki er móðurskóli hér á landi. Verkefnið hlaut hvatningarverðlaun Dags gegn einelti árið 2018 og hefur sannað gildi sitt í þeim skólum sem hafa innleitt það.

Nemendur G.Í. hafa verið duglegir í vetur að taka þátt í verkefninu og hafa margir nemendur starfað sem vinaliðar. Á dögunum var uppskeruhátíð þeirra sem voru að ljúka störfum og var hópnum þökkuð vel unnin störf og að því loknu var þeim boðið í bíó.