VALMYND ×

Vegna fyrirspurna um þjónustu talmeinafræðings

Skóla- og tómstundasviði hafa borist fyrirspurnir frá foreldrum og kennurum um hvaða þjónustu Ísafjarðarbær býður upp á fyrir börn á leik- og grunnskólaaldri með málþroska- og framburðarfrávik. Talmeinaþjónusta flokkast sem heilbrigðisþjónusta þó svo að sveitarfélögin sjái um að útvega fagfólkið.

Í vetur hefur enginn talmeinafræðingur verið starfandi á Ísafirði þar sem enginn með slíka menntun hefur fengist í verkið og þar af leiðandi hefur ekki verið hægt að bjóða upp á almenna þjónustu talmeinafræðings fyrir börn á leik- og grunnskólaaldri.  Í fámennari skólunum hefur þjónustan verið keypt af Tröppu í tal- og framburðarþjálfun, en þar sem Trappa býður aðeins upp á takmarkaðan fjölda plássa hafa þau ekki getað bætt við börnunum á Ísafirði.

Ísafjarðarbær hefur þó haft tök á því í vetur að fá Signýju Gunnarsdóttur talmeinafræðing til Ísafjarðar einu sinni í mánuði, til að skima fyrir og greina málþroskavanda barna með áherslu á áætlanagerð og eftirfylgd í leik- og grunnskólum.

Leik- og grunnskólar hafa svo í samvinnu við foreldra verið að vinna að snemmtækri íhlutun í málþroska og stuðla þannig að fyrirbyggjandi aðgerðum sem geta komið í veg fyrir langvarandi námsvanda.

Foreldrar barna með málþroskavanda hafa svo alltaf kost á að útvega börnum sínum sjálfir þjónustu hjá öðrum talmeinafræðingum eða fyrirtækjum sem bjóða upp á slíka þjónustu.

Það er von okkar að það takist sem fyrst að ráða til okkar talmeinafræðing, enda er hér um mikilvæga heilbrigðisþjónustu að ræða. Staðan hefur því miður verið þannig að talmeinafræðingar eru fáir og mörg sveitarfélög að leitast eftir að ráða þá til sín.

 

Skóla- og tómstundasvið ísafjarðarbæjar

Deila