VALMYND ×

Þemadagar

Í gær og fyrradag voru þemadagar hér í skólanum. Nemendum var skipt í hópa þar sem hver hópur valdi sér eitt land til umfjöllunar. Útfærslurnar voru margvíslegar og vinnan fjölbreytt og skemmtileg, allt frá bakstri á dönskum bollum til brasilísks stríðsdans og japansks sushi. Það var virkilega gaman að sjá vinnuna og afraksturinn hjá krökkunum og eru allir veggir skólans þaktir fallegum hugmyndaríkum verkum.

Með þemanámi sem þessu er hægt að nálgast ýmis félagsleg markmið eins og til dæmis að þjálfa nemendur í samvinnu, fá nemendur til að skilja að samhjálp og sanngirni auðveldar starfið, að þeir læri hvað felst í málamiðlun, að þeir læri að hlusta á skoðanir annarra og taki mark á þeim og að nemendur læri að gagnrýna á uppbyggilegan hátt. Á bak við vinnuna þessa tvo daga nálgast nemendur mörg markmið aðalnámskrár og samþætting sem þessi þvert á námsgreinar gerir námið ennþá skemmtilegra og innihaldsríkara.