VALMYND ×

Skólabyrjun

Í morgun var skólasetning í sal skólans hjá 2. - 10. bekk, þar sem Sveinfríður Olga Veturliðadóttir, skólastjóri, tók á móti nemendum og fjölmörgum aðstandendum þeirra. Nemendur 1. bekkjar voru boðnir sérstaklega í viðtöl til sinna umsjónarkennara. Við skólasetninguna fór Olga m.a. yfir stöðu húsnæðismála, en eins og allir vita þá greindist mygla í gráa skólanum/gagnfræðaskólanum í mars síðastliðnum og hafa endurbætur staðið yfir í allt sumar. Á miðvikudaginn í næstu viku mun efri hæðin verða klár, en gert er ráð fyrir að neðri hæðin klárist um mánaðamótin september - október.

Það verður mikill munur fyrir skólastarfið að fá efri hæðina afhenta á ný, en þrengslin síðustu mánuði hafa tekið á alla, bæði starfsfólk og nemendur og alveg einstakt hvað allir hafa sýnt mikið umburðarlyndi við þessar erfiðar aðstæður. En nú horfir þetta allt til betri vegar og munu u.þ.b. 130 nemendur fá nýuppgerðar kennslustofur í næstu viku.

7. bekkur er á leið í skólabúðir að Reykjum í Hrútafirði á mánudagsmorgun og mun dvelja þar fram á föstudag. Mæting hjá þeim er kl. 7:45 á mánudaginn og hafa umsjónarkennarar sent allar frekari upplýsingar til foreldra.

Að öðru leyti eru fyrstu skóladagarnir hefðbundnir og hlökkum við til komandi skólaárs með nýjum áskorunum.