VALMYND ×

Skipulag næstu daga

Nú er að koma mynd á skipulagið hjá okkur fyrir næstu daga. Ljóst er að umtalsverð röskun verður á skóladegi allra nemenda, mismikil þó. Við leggjum áherslu á að halda yngstu börnunum sem mest í skólanum og er það í forgangi hjá okkur.

  • 1.-4. bekkur verður í skólanum frá kl. 8 til 12:40. Frístundin dettur út en Dægradvölin tekur við sínum börnum kl. 12:40.
  • 5.-7. bekkur verður í skólanum frá kl. 8 – 12:15 alla daga.
  • 8. og 9. bekkur mætir 2.-3. í viku frá frá kl. 13:00-15:00. Umsjónarkennarar senda nánari útærslu.
  • 10.bekkur mætir alla daga milli 13:00 og 15:00.

Mötuneytið verður lokað og nemendur í 1.-7. bekk þurfa að hafa morgunnesti og hádegisnesti ef þurfa þykir. Allar íþrótta- og verkgreinar verða með öðrum hætti og þurfa nemendur ekki að taka með sér íþrótta- og sundföt.

Strætóferðir verða á sama tíma að morgni en við hvetjum foreldra að keyra börn sín og best ef hægt er að hafa sveigjanlega skólabyrjun frá 7:45 til 8:20.  Engar seinkomur verða skráður fyrr en eftir 8:20. Einnig viljum við vekja athygli á því að þar sem nemendur sem búa í Miðtúni og innar í  firðinum og þeir sem búa í Hnífsdal eiga rétt á skólaakstri og aðrir ekki. Þá mun strætisvagninn ekki stoppa á stoppstöðvum við bókasafnið, Seljalandsvegi (nema við Miðtúnsbrekkuna) og Krók. Þetta er gert til að reyna að viðhalda leyfilegum hámarksfjölda í þessum aðstæðum.

  • Strætó fer frá skólanum 12:20 fyrir miðstigið,
  • 12:50 fyrir þá sem ekki fara í Dægradvöl á yngsta stigi.
  • Strætó verður einnig fyrir unglingana 12:50 úr Holtahverfi og 12:40 úr Hnífsdal og frá skólanum kl. 15:10

Við gerum okkur fulla grein fyrir því að þetta hefur mikil áhrif á daglegt líf fjölskyldna en þetta eru þær aðstæður sem við búum við í dag og leggjum við okkur fram um að framfylgja fyrirmælum sem yfirvöld setja okkur eins og t.d. hámark nemenda í hverjum námshóp er 20.  Hóparnir mega aldrei hittast og verða alltaf að vera í sama rými.

Helstu einkenni Covid 19 sjúkdómsins eru hósti, hiti, bein- og vöðvaverkir og þreyta og slappleiki. Sýni nemendur þessi einkenni á að halda þeim heima. Ef nemendur hafa verið veikir og þurfa að vera inni í frímínútum þá er mælst til að þeir verði heima.

Við vonumst til að allir hafi skilning á þessum aðstæðum og að með þessum aðgerðum leggjum við okkar lóð á vogarskálarnar til að hægja á framgangi veirunnar.

Foreldrar eru beðnir um að takmarka heimsóknir í skólann og nýta síma og tölvupóst til samskipta.

Eins og þetta sé ekki nóg þá er veðurspáin fyrir morgundaginn mjög slæm.  Ef hún gengur eftir verður aðeins lágmarksþjónusta í skólanum og þeir foreldrar sem geta haft börn sín heima eru hvattir til þess. Við minnum á að hægt er að tilkynna slík forföll á einkaskilaboðum á facebook síðu skólans eða hringja í skólann í fyrramálið.

Ef einhverjar spurningar vakna þá hvetjum við ykkur til að hafa samband við umsjónarkennara barna ykkar og eins mun heimasíðan og facebook síðan verða reglulega uppfærðar, þar sem viðbúið er að eitthvað eigi enn eftir að breytast.

Þessar upplýsingar eru nú í þýðingum yfir á ensku, pólsku og thaílensku og verða sendar í tölvupósti á foreldra um leið og hægt er. 

Deila