VALMYND ×

Samstarf heimila og skóla

Samstarf heimila og skóla skiptir miklu máli í velferð og vellíðan skólabarna. Margar rannsóknir sem gerðar hafa verið sýna fram á að stuðningur foreldra er einn stærsti áhirfavaldur hvað varðar námsárangur, líðan og hegðun barna í skólanum. Í íslenskri rannsókn frá árinu 2008 kemur einnig fram að sterk samsvörun er á milli væntinga foreldra til barna sinna og árangurs þeirra og styður þessi rannsókn líka að foreldrar hafi mikil áhrif á líðan og árangur nemenda í skóla.

Í Grunnskólanum á Ísafirði var starfandi allt síðasta skólaár og fram á þetta ár, teymi kennara sem hafði það að markmiði að setja fram helstu áhersluþætti hvað varðar samstarf heimila og skóla.  Einnig skilgreindi teymið hlutverk foreldra og skóla, gerði tillögur að hagnýtum  verkefnum sem stuðla að samstarfi um hvert barn svo fátt eitt sé nefnt.  Markmiðið með vinnu teymisins var líka að skrifa kafla í skólanámskránna um foreldrasamstarfið og er þeirri vinnu næstum lokið.   En til að samstarf eigi sér stað þá þurfa bæði foreldrar og starfsmenn að koma að slíkri vinnu og var boðað til samstarfsfundar nú á miðvikudaginn til að fara yfir hugmyndir teymisins og fá fram hugmyndir foreldra um hvernig þeir myndu vilja sjá samstarfið. Mætingin var langt undir væntingum og mættu aðeins tveir foreldrar til fundarins og fundi því frestað. Við í skólanum óskum mjög eftir samstarfi við foreldra og biðjum þá að velta fyrir sér hvernig því sé best háttað. Á aðalfundi foreldrafélagsins, þann 1. nóvember næstkomandi, kl. 20:00, verður aftur farið yfir samstarf heimila og skóla og hvet ég foreldra eindregið til að mæta á fundinn.