VALMYND ×

Minningarorð

Í dag kveðjum við Monicu Mackintosh sem kenndi við Grunnskólann á Ísafirði í rúm 30 ár allt þar til hún lét af störfum vegna veikinda sinna fyrir rúmu ári.  Monica var einstakur samstarfsmaður, traust og heil í öllum samskiptum. Henni var umhugað um samstarfsfólkið sitt og margir sem leituðu til hennar.  Hún náði öllum með sér og var hrókur alls fagnaðar í félagsstarfi starfsmanna.  Monica var líka einstakur kennari. Hún  bar hag nemenda sinna fyrir brjósti, var metnaðarfull fyrir þeirra hönd og vildi þeim allt hið besta.  Það var mjög gott að koma inn í kennslustundir hjá henni því þar var alltaf notalegt andrúmsloft og auðséð að gagnkvæm virðing, traust og gleði ríkti. Hún var fljót að tileinka sér allar nýjungar í skólastarfinu, hvort sem um var að ræða kennsluaðferðir eða tæknimál. Monica var mjög skipulögð og fátt virtist koma henni úr jafnvægi og tók hún á erfiðum  málum með yfirvegun og jafnaðargeði. Monica skilur eftir sig stórt skarð í starfsmannahópi skólans sem og hjá  nemendum og foreldrum því í svona litlu samfélagi er nálægðin mikil og margir sem notið hafa leiðsagnar hennar í gegnum árin.

Það er með virðingu og þökk sem við kveðjum Monicu í dag og flytjum við fjölskyldu hennar okkar dýpstu samúðarkveðjur.

F.h. Grunnskólans á Ísafirði

Sveinfríður Olga Veturliðadóttir, skólastjóri

Helga S. Snorradóttir, aðstoðarskólastjóri