VALMYND ×

Ísfirðinga getið í þýsku blaði

Dagana 30.september til 6.október síðastliðinn dvöldu 8 nemendur úr Ísafjarðarbæ ásamt fararstjórum, í Kaufering í Þýskalandi, eins og fram hefur komið hér í fréttum. Þessari heimsókn var gerð góð skil í bæjarblaði í Kaufering eins og sjá má á meðfylgjandi mynd og snaraði Herdís Hübner textanum fyrir okkur yfir á íslensku.

Frá Íslandi til Kaufering

Skiptinemar frá Ísafirði heimsækja vinabæinn

Þau heita Dagbjört, Marta Sóley, Einar Geir, Egill, Natalía, Davíð, Rán og Svava. Átta skiptinemar frá íslenska smábænum Ísafirði þar sem íbúar eru 2600, komu nýlega ásamt tveimur kennurum sínum til Kaufering og dvöldu þar í eina viku. Þau gistu heima hjá fjölskyldum nemenda í Montessori-skólanum og sóttu kennslustundir þar með félögum sínum. Íslensku nemendurnir búa á mjög afskekktum stað í sterkum tengslum við náttúruna og þeirra beið mjög fjölbreytt og áhugaverð dagskrá. Strax eftir komuna lá leiðin til Neuschwanstein og ekki mátti heldur missa af þessu tækifæri til að kynna sér Oktoberfest. Mannfjöldinn og hinar margvíslegu skemmtanir voru nýnæmi fyrir Íslendingana – allt var svo gerólíkt því sem þau þekkja frá Íslandi. Til að kynnast sögu Þýskalands var haldið í fangabúðirnar í Dachau og fangelsið í Landsberg. Aðallega var ferðast með lestum en engar lestir eru á Íslandi. Svo skemmtilega vildi til að blásarasveit var samferða hópnum í lestinni og lék hún bæversk lög á leiðinni en Íslendingarnir dönsuðu með.

Íslensku krakkarnir höfðu sérstaklega gaman af að fara saman í verslunarleiðangra í Landsberg og Augsburg. Í litla bænum þeirra eru engar stórverslanir, þau þurfa að panta allt á netinu. En þeim fannst líka mjög áhugavert að skoða Fuggerei fátækraheimilin og gullna salinn í ráðhúsinu og gaman að fá sér pizzu á göngugötunni.

Antje Bommel sem er tengiliður vinabæjarsamstarfsins milli Kaufering og Ísafjarðar var helsta hvatamanneskja að þessum samskiptum og var hún reiðubúin að aðstoða og gefa góð ráð eftir þörfum. Hún er mikill Íslandsvinur, talar sjálf íslensku og hún reyndi að sinna kennurunum sérstaklega. Þeir höfðu einkum áhuga á Montessori-skólanum: Hvað er líkt og hvað er ólíkt?

Enda þótt enginn Montessori-skóli sé á Íslandi varð fljótlega ljóst að kennsluhættir eru býsna svipaðir. Heimsóknin var skemmtileg upplifun fyrir báða aðila, því lífshættir eru svo ólíkir og það var svo margt nýtt að sjá. Núna vita t.d. nemendurnir í Kaufering að mikið af íslensku sælgæti inniheldur lakkrís, á Íslandi eru næstum engir glæpir framdir og þar eru 13 jólasveinar sem heita mismunandi nöfnum.

Allan tímann spreyttu þýsku nemendurnir sig á að bera fram íslensk orð – sem er næstum ómögulegt - og var mikið hlegið. Auk þess eru þau líka orðin talsvert betri í ensku eftir þessa þjálfun!

Það var mikið stuð í kveðju-grillveislunni á skólalóðinni, spilað á píanó skólans og dansað á íslenska vísu en á föstudag var komið að heimferð. Nú hlakka allir til þegar þýsku krakkarnir endurgjalda heimsóknina en þau ætla til Ísafjarðar um páskana 2018.

„They are friends now!“ sagði íslenski kennarinn, Bryndís, svo fallega að lokum.