VALMYND ×

Heimsókn í Skagann 3X

Fimmtudaginn 11. maí var nemendum 10. bekkjar boðið í heimsókn í fyrirtækið Skaginn 3X á Ísafirði. Karl Kristján Ásgeirsson rekstrarstjóri tók á móti hópnum og byrjaði á því að segja svolítið frá sögu fyrirtækisins og starfsemi þess.  Síðan leiddi hann hópinn um allar deildir, allt frá skrifstofunni þar sem m.a. hönnunarvinnan fer fram í tölvum og gegnum salina þar sem vélarnar eru smíðaðar, stálið skorið, sveigt og beygt skv. teikningunum og svo var endað á klefanum þar sem hinir ýmsu hlutir eru sprautaðir með glersalla til að gefa þeim rétta áferð. Krakkarnir þurftu margs að spyrja og voru mjög áhugasamir um starfsemina á þessum stóra vinnustað. Þeir voru að lokum leystir út með veitingum og gjöfum.

Það er mikilsvert fyrir ungt fólk að fá að heimsækja svo glæsilegt fyrirtæki á heimaslóðum og við þökkum kærlega fyrir okkur.​ /HMH