VALMYND ×

Gönguskíðakrakkar gera það gott

Um liðna helgi var Bikarmót SKÍ í skíðagöngu haldið í blíðskaparveðri á Seljalandsdal. Keppendur voru frá 13 ára aldri og komu frá Ísafirði, Ólafsfirði, Akureyri og Reykjavík. Keppt var í sprettgöngu, með frjálsri aðferð og í svokallaðri skiptigöngu, sem er tvíkeppni, þ.e. hefðbundin aðferð og skaut.

Katrín Ósk Einarsdóttir, nemandi í 8. bekk G.Í. gerði sér lítið fyrir og sigraði þrefalt, þ.e. í öllum keppnisgreinum. Unnur Eyrún Kristjánsdóttir í 8. bekk varð í 2. sæti með frjálsri aðferð og tvíkeppni og í 3. sæti í sprettgöngu. Jóhanna María Steinþórsdóttir í 9. bekk varð í 3. sæti í tvíkeppni og í því 4. í sprettgöngu og frjálsri aðferð. Stelpurnar kepptu allar í flokknum 13 - 14 ára.

Hjá strákunum varð Dagur Benediktsson í 9. bekk í 2. sæti í öllum greinunum þremur. Sigurður Arnar Hannesson í 8. bekk varð í 3. sæti í sprettgöngu og tvíkeppni og í 4. sæti með frjálsri aðferð. Dagur og Sigurður Arnar kepptu báðir í flokki 13 - 14 ára.

Guðmundur Sigurvin Bjarnason í 10. bekk, keppti í flokki 15 - 16 ára og sigraði í sprettgöngu og varð í 2. sæti með frjálsri aðferð og í tvíkeppninni.

Við óskum öllum þessum krökkum innilega til hamingju með góðan árangur.