VALMYND ×

Göngum í skólann

9.bekkur gekk á Kistufell
9.bekkur gekk á Kistufell
1 af 2

Göngum í skólann verkefnið hófst formlega í dag, miðvikudaginn 8. september. Markmið verkefnisins er að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni. Ein einfaldasta leiðin til að auka hreyfingu í daglegu lífi er að velja virkan ferðamáta, svo sem göngu, hjólreiðar, hlaup, línuskauta og hjólabretti. Ávinningurinn er ekki aðeins bundinn við andlega og líkamlega vellíðan heldur er þetta einnig umhverfisvæn og hagkvæm leið til að komast á milli staða.

Grunnskólinn á Ísafirði tekur að sjálfsögðu þátt í verkefninu nú sem endranær og hvetur alla til ganga eða hjóla í skólann. Fjallgöngurnar okkar skipa einnig stóran sess hjá okkur hvað varðar hreyfingu og heilbrigði. Fjórir árgangar fóru í fjallgöngur í dag, mismunandi erfiðar gönguleiðir. 2.bekkur fór á Hafrafellsháls, 6.bekkur á Sandfell, 7.bekkur að Fossavatni og 9.bekkur á Kistufell. Fyrir utan fjallgöngur allra árganga þessa dagana, er mikil áhersla lögð á útivist og hreyfingu allan mánuðinn.